Hoppa yfir valmynd
24. mars 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðstefna um þróun símenntunar á Íslandi og í Evrópu - Aðgengi og fjármögnun í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 26.03.2004

Ráðstefna um símenntun á Íslandi og kynning á áherslum Evrópusambandsins í málefnum símenntunar verður haldin í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 26. mars n.k.

Ráðstefna um símenntun á Íslandi og kynning á áherslum Evrópusambandsins í málefnum símenntunar verður haldin í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 26. mars n.k.

Ráðstefnan er styrkt af Evrópusambandinu en að henni standa menntamálaráðuneytið, Rannsóknaþjónusta Háskólans, Alþýðusamband Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Samtök atvinnulífsins. Á ráðstefnunni verður fjallað um aðgengi og mat á formlegu og óformlegu námi annars vegar og þróun og fjármögnun símenntunar hins vegar.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu, mun setja ráðstefnuna en Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, fer með fundarstjórn.

Tveir vinnuhópar hafa verið að störfum undanfarnar vikur að undirbúningi ráðstefnunnar og verða niðurstöður þeirra kynntar.

Fjöldi erlendra og innlendra fyrirlesara taka þátt í ráðstefnunni. Prófessor Lynne Chisholm mun fjalla um stefnu ESB í símenntunarmálum. Hún starfaði sem sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn ESB við stefnumótun sambandsins í þessum málaflokki. Lynne Chisholm er prófessor við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn auk þess að starfa sem sérfræðingur að símenntunarmálum hjá CEDEFOP (European Center for the Development of Vocational Education and Training). Bernd Wächter framkvæmdastjóri ACA (Academic Co-operation Association), samstarfsvettvangs háskóla í Evrópu mun fjalla um aðkomu háskóla að símenntun og Gregory Wurzburg sérfræðingur í rannsóknum á fjármögnun og þróun símenntunar hjá OECD í París, mun varpa ljósi á fjármálahliðina.

Jón Torfi Jónasson prófessor við HÍ mun velta upp þeirri spurningu hverjir ættu að bera ábyrgð á skipulagningu og fjármögnun menntunar fullorðinna á Íslandi. Ólafur Grétar Kristjánsson deildarsérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, munu fjalla um sýn stjórnvalda annars vegar og atvinnulífsins hins vegar, á mat á raunfærni.  Kristín Jónsdóttir forstöðumaður Endurmenntunar Háskólans mun síðan ræða um einstaklingsmiðaðri háskóla.

 

Dagskrá, kynning á fyrirlesurum og skráningarform eru á vef Rannsóknaþjónustunnar http://www.rthj.hi.is

 

Aðgangur er ókeypis og eru allir sem áhuga hafa á símenntun hvattir til þátttöku. Ráðstefnan hefst kl. 9 föstudaginn 26. mars.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum