Hoppa yfir valmynd
26. mars 2004 Innviðaráðuneytið

Samningur um vaktstöð siglinga

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, undirrituðu föstudaginn 26.mars, samning um verkaskiptingu vegna vaktstöðvar siglinga.

Samgönguráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra skrifa undir samninginn
Undirritun samningsins

Samningurinn er hluti af breyttri verkefnaskiptingu á milli ráðuneytanna sem ákveðin var um síðastliðin áramót. Þá fluttust umferðarmál til samgönguráðuneytis og málefni leitar og björgunar fluttust til dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

Markmið samningsins er m.a. að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna. Til að ná þessu markmiði skal setja á fót vaktstöð siglinga. Samhæfa skal rekstur vaktstöðvarinnar annarri vaktþjónustu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með það fyrir augum að auka öryggi, stytta viðbragðstíma auk þess að samlegðaráhrif leiði til hagræðingar sem m.a má nýta til uppbyggingar tæknibúnaðar og endurnýjunar fjarskiptakerfa til að tryggja öryggi sjófarenda.

Samgönguráðherra fer með yfirstjórn mála er varða vaktstöð siglinga, en Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd þeirra. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið tekur hins vegar við daglegum rekstri vaktstöðvarinnar þ.e. vöktun móttöku og miðlun upplýsinga en felur í sínu umboði stofnunum og öðrum aðilum að framkvæma þau verkefni. Vöktun, móttaka og miðlun upplýsinga skv. samningi þessum skal hefjast eigi síðar en 1. janúar 2005.

Verkefni vaktstöðvar siglinga verða svo nánar útfærð í sérstökum þjónustusamningi á milli Siglingastofnunar Íslands annars vegar og Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar hins vegar.

Lög um vaktstöð siglinga



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta