Hoppa yfir valmynd
29. mars 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ógn við heilsu og velferð þriðjungs mannkyns

Koreufundur1
Koreufundur1

Umhverfisráðherrar þjóða heims ræða leiðir til þess að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðbúnaði á fundi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Jeju í Suður Kóreu í morgun. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra tekur þátt í fundinum.

Þessi viðfangsefni eru lykil forsenda þess að uppræta megi fátækt og að bæta kjör hinna verst settu í heiminum. Á tíu sekúndna fresti verður dauðsfall af völdum sjúkdóma sem berast með spilltu vatni, eða eiga rætur að rekja til mengaðra strandsvæða og ófullnægjandi hreinlætisaðbúnaðar. Í níu af hverjum tíu tilfella er um börn undir fimm ára aldri að ræða.

Ófullnægjandi hreinlætisaðbúnaður og skortur á hreinu vatni ógna heilsu og velferð um þriðjungs mannkyns. Þjóðarleiðtogar settu sér það markmið í Jóhannesarborg árið 2002 að draga um helming úr fjölda þeirra sem þannig er ástatt um fyrir árið 2015.

Áhersla á hreinlætisaðstöðu og hreint vatn hefur beint athygli að aðgerðaáætlun Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn mengun sjávar frá landi vegna þess hve neikvæð áhrif staðbundin mengun strandsvæða vegna frárennslis frá þéttbýli getur haft á heilsu og velferð íbúanna. Í skýrslu sem kynnt var á fundinum í dag kom einnig fram að losun næringarefna frá landbúnaði og þéttbýli í strandsjó er vaxandi staðbundin ógn við fiskveiðar á grunnslóð.

Reglubundnir fundir umhverfisráðherra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna eru haldnir árlega. Fulltrúar 150 ríkja taka þátt í fundinum auk fulltrúa félagasamtaka og alþjóðastofnana.

Fréttatilkynning nr. 8/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta