Hoppa yfir valmynd
29. mars 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úthlutun Menningarborgarsjóðs föstudaginn 26. mars 2004

Úthlutun úr Menningarborgarsjóði fór fram í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni föstudaginn 26. mars og er það í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

- 26,6 milljónir til 50 verkefna

Yfirlit yfir styrkþega 2004 (doc - 72KB)

Úthlutun úr Menningarborgarsjóði fór fram í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni föstudaginn 26. mars og er það í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Menntamálaráðherra og borgarstjóri fluttu ávörp við athöfnina og formaður úthlutunarnefndar gerði grein fyrir úthlutun ársins 2004. Að þessu sinni hlutu 50 verkefni styrk úr sjóðnum (sjá lista yfir styrkhafa) og eru verkefnin afar fjölbreytt, á fjölmörgum sviðum menningarlífsins, alls staðar að af landinu.

Auglýst var eftir umsóknum til nýsköpunarverkefna á sviði lista, menningarverkefna á vegum sveitarfélaga á landsbyggðinni, menningarverkefna fyrir börn og ungt fólk og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.

Samtals bárust sjóðnum 220 umsóknir og eins og fyrr sagði hlutu 50 verkefni styrk.

Menntamálaráðherra og borgarstjóri stofnuðu sjóðinn í ársbyrjun 2001 í framhaldi af menningarborgarárinu 2000 og fólu Listahátíð í Reykjavík umsýslu hans. Við stofnun sjóðsins lagði M2000 til fé af rekstrarhagnaði og menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg lögðu til viðbótarfé. Nú voru til úthlutunar samtals 26,6 milljónir króna.

Í skilgreiningu á verkefnum felst að hvatt er til samstarfs á ýmsum sviðum á milli ólíkra aðila alls staðar á landinu. Nú þegar hefur þetta fyrirkomulag sannað gildi sitt. Sveitarfélög, stofnanir á sviði lista og menningar, listamenn, fræðimenn og fjölmargir aðrir hafa tengst og unnið saman að mikilvægum verkefnum á sviði menningar og lista. Stórhuga hugmyndir hafa litið dagsins ljós og margvísleg verkefni hafa orðið til, mörg hver þeirrar gerðar og af þeirri stærðargráðu að þau hefðu varla orðið að veruleika án tilkomu Menningarborgarsjóðs og þeirrar hugmyndar sem hann byggist á, að sameina krafta; krafta ríkis og borgar og í kjölfarið krafta sveitarfélaga, stofnana og einstaklinga.

Fimm manna úthlutunarnefnd velur verkefnin, en hana skipa:

Karólína Eiríksdóttir, tónskáld, formaður, Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, varaformaður, Signý Pálsdóttir, menningarmálastjóri Reykjavíkur, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, forstöðumaður Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og Örnólfur Thorsson, íslenskufræðingur.

Við úthlutunina í Listasafni Kópavogs gerðu tveir styrkhafar grein fyrir verkefnum sínum, Kjartan Ragnarsson f.h. verkefnisins Landnámssetur Íslands og Borgarbyggð, Egilssaga sýnileg og Unnur Jökulsdóttir og Sigurgeir Sigurjónsson f.h. verkefnisins Íslendingar, sýning á Ingólfstorgi á ljósmyndum Sigurgeirs Sigurjónssonar af Íslendingum og íslensku landslagi. Kolbeinn Bjarnason, félagi í Caput, sem einnig var meðal styrkhafa, sá um tónlistarflutning.

Upplýsingar um sjóðinn og styrkhafa frá upphafi má sjá á www.artfest.is

Allar nánari upplýsingar veitir Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík, í síma 561 2444 eða 891 9699.

Yfirlit yfir styrkþega 2004 (doc - 72KB)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum