Hoppa yfir valmynd
31. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Innflytjendur á Íslandi

Fréttatilkynning

Félagsmálaráðherra hefur fengið í hendur tillögur starfshóps sem skipaður var í nóvember 2003. Í starfshópnum sátu fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, Flóttamannaráði, Fjölmenningarsetri, Alþjóðahúsi og dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Hlutverk hans var að fjalla um skipulag á þjónustu við innflytjendur á Íslandi, meta leiðir til að auka samstarf og samhæfingu þeirra aðila sem um þessi mál fjalla og auka gæði starfsins.

Mikil aukning hefur átt sér stað á fjölda útlendinga á Íslandi hin síðari ár. Á síðustu tíu árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi tvöfaldast, þ.e. úr um fimm þúsund manns í rúmlega tíu þúsund árið 2003. Í sumum sveitarfélögum er fjöldi útlendinga allt að 20% af heildaríbúafjölda. Einnig liggur fyrir að mikil fjölgun verður á erlendum starfsmönnum í tengslum við stórframkvæmdirnar á Austfjörðum. Ljóst er að þessi aukning á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur kallað á ráðstafanir af hálfu ríkis og sveitarfélaga sem miða að því að tryggja að til staðar sé þjónusta og ráðgjöf við innflytjendur þannig að félagsleg aðlögun þeirra að íslensku samfélagi gangi sem greiðast fyrir sig.

innflytjendur

Mynd: Aukning erlendra ríkisborgara frá 1981 til 2003

Formleg þjónusta við innflytjendur á Íslandi hefur að mestu farið fram á tveimur stöðum á landinu, þ.e. í Fjölmenningarsetri á Vestfjörðum og í Alþjóðahúsi í Reykjavík. Fjölmenningarsetur starfar á grundvelli þingsályktunar Alþingis frá maí 2000 og er starfsemi þess á Vestfjörðum, Alþjóðahús er þekkingar- og þjónustufyrirtæki á sviði fjölmenningar og mannréttinda í eigu Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, en var áður í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Megintillaga starfshópsins er að sett verði á laggirnar sérstök sjálfseignarstofnun sem starfi á landsvísu og hafi heildaryfirsýn yfir þjónustu við innflytjendur á Íslandi. Lagt er til að starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar byggi á tveimur stoðum sem fyrir eru á þessum vettvangi, þ.e. á Alþjóðahúsi annars vegar og Fjölmenningarsetri á Vestfjörðum hins vegar. Starfsemin verði áfram rekin í Reykjavík og á Vestfjörðum, hún verði jafnframt efld á þessum stöðum og leitað leiða til að auka þjónustuna á landsbyggðinni, t.d. á Austfjörðum. Það er mat starfshópsins að þörfin á aukinni þjónustu fari vaxandi og heildarsamræming á þessu sviði sé afar mikilvæg.

Er markmiðið að miðstöðin geti staðið undir nafni og þjónað öllum innflytjendum á Íslandi, hvar sem er á landinu. Til að slíkt markmið nái fram að ganga er nauðsynlegt að koma á samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Enn fremur leggur hópurinn það til að eitt af hlutverkum slíkrar miðstöðvar væri að koma á markvissu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að áfram verði unnið að því að útfæra tillögur starfshópsins í samstarfi ofangreindra aðila, auk þess sem óskað verði eftir þátttöku Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fulltrúa innflytjenda og fleiri aðila. Næstu skref miða að því að skilgreina nánar hlutverk slíkrar landsmiðstöðvar, verkefni hennar, ábyrgð, fjármögnun og skipulag. Gert er ráð fyrir að niðurstöður og tillögur nefndar, sem falið verður að fjalla um málið, liggi fyrir á haustdögum og verði þá lagðar fyrir ríkisstjórn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum