Kynningarfundur um þróunarsjóð EFTA þann 29. apríl nk.
Þann 29. apríl nk. stendur utanríkisráðuneytið fyrir kynningarfundi þar sem kynntir verða möguleikar íslenskra fyrirtækja til þátttöku í verkefnum sem styrkt eru af þróunarsjóði EFTA.
Með samningnum um stækkun EES var samið um aukin framlög EFTA-ríkjanna þriggja til fjármögnunar á umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Munu EFTA-ríkin innan EES verja 600 milljónum evra til uppbyggingar í 13 ríkjum ESB á fimm ára tímabili 1. maí 2004 til 30. apríl 2009. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu þeirra aðildarríkja sem standa að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins.
Með framsögu á fundinum verður m.a. Per Bondesen, framkvæmdastjóri þróunarsjóðs EFTA, en hann mun kynna starfsemi þróunarsjóðsins og möguleika íslenskra fyrirtækja á að koma að verkefnum sem hann styrkir. Styrkhæf verkefni geta m.a. verið á sviði orkumála, sjávarútvegs og heilbrigðismála.
Nánari dagskrá mun liggja fyrir í apríl.
Frekari upplýsingar um þróunarsjóðinn er að finna undir slóðinni www.ees.is