Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2004 Matvælaráðuneytið

Opnun hönnunarsýningar í París.

Í dag opnar Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra íslenska hönnunarsýningu í París, sem ber heitið Transforme. Á sýningunni er til sýnis fjölbreytt úrval íslenskrar hönnunar. Þar má nefna iðnhönnun, húsgagnahönnun, textílhönnun, keramikhönnun, skartgripahönnun, fatahönnun, grafíska hönnun, arkitektúr og landslagsarkitektúr. Markmiðið með sýningunni er að koma íslenskri hönnun á framfæri og kynna þá framsækni og sérstöðu sem íslenskir hönnuðir hafa tileinkað sér. Um er að ræða eina umfangsmestu og glæsilegustu sýningu sem sett hefur verið upp í tengslum við íslenska hönnun.

Við val verka á sýninguna var lögð áhersla á nýja hluti sem sýndu sérstöðu Íslands í hönnunarheiminum og reynt að varpa ljósi á þær öfgar og þær miklu andstæður sem þjóðin býr við. Sýningin er haldin í hinu virta VIA galleríi í París. Salurinn í VIA galleríinu er þrískiptur og er íslensku hönnunarsýningunni skipt í þrjá hluta þannig að hver salur sýnir ólíka þætti íslensks raunveruleika; hvíti salurinn (snjór og ímyndir vetrarins), blái salurinn (myrkrið, hafið og dulhyggjan) og rauði salurinn (umbreyting náttúrunnar og gróandinn).

Íslenska hönnunarsýningin er haldin að frumkvæði iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og kostuð að stærstum hluta af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti með stuðningi Reykjavíkurborgar og Útflutningsráðs Íslands. Sýningarstjórar eru Páll Hjaltason, arkitekt og Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður.

Reykjavík, 1. apríl 2004.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta