Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2004 Utanríkisráðuneytið

Óformlegur fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel, 2. apríl 2004

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag óformlegan fund utanríkisráðherra Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO). Ráðherrarnir samþykktu sérstaka yfirlýsingu varðandi hryðjuverk. Þeir fordæmdu ódæðisverkin sem nýlega voru framin í Madríd og vottuðu fjölskyldum fórnarlambanna og spænsku þjóðinni sína dýpstu samúð. Þá áréttuðu þeir þann staðfasta ásetning sinn að berjast gegn því meini, sem alþjóðleg hryðjuverk væru, og sú barátta yrði eitt helsta mál á dagskrá bandalagsins á komandi árum.

Utanríkisráðherrarnir ræddu einnig undirbúning fyrir komandi leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður dagana 28. og 29. júní n.k. í Istanbúl í Tyrklandi. Þeir fjölluðu um ástandið í Kosóvó í kjölfar nýlegra ofbeldisverka, sem þeir fordæmdu og ítrekuðu að myndu í engu breyta stefnu bandalagsins í málefnum héraðsins. Þá var rætt um stöðuna í aðgerðum bandalagsins í Afganistan og frekari útfærslu á þeim út á landsbyggðina og væntanlega aðstoð alþjóðlegu öryggissveitanna (ISAF) við framkvæmd kosninganna í september n.k. Á ráðherrafundinum var lagður grunnur að öflugra samstarfi við ríkin sjö í Miðjarðarhafssamstarfinu og að nýju frumkvæði um samstarf við ríki á Stór Mið-Austurlandasvæðinu (Greater Middle East). Samstarf NATO og Evrópusambandsins (ESB) var einnig til umræðu og væntanleg yfirtaka ESB á verkefnum friðargæslusveita bandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu (SFOR) í lok ársins. Einnig var fjallað um þróunina í Írak.

Þá var einnig haldinn fundur í NATO-Rússlandsráðinu og rædd sameiginleg hagsmunamál, þ.m.t. þróun mála á Balkanskaga.

Fyrir fundinn var haldin sérstök hátíðarathöfn þar sem nýju bandalagsríkin sjö (Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía) voru boðin velkomin sem fullgildir meðlimir. Ríkin sjö urðu formlega aðildarríki að bandalaginu þann 29. mars 2004 þegar þau afhentu Bandaríkjunum, vörsluaðila sáttmála bandalagsins, fullgildingarskjöl sín.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta