Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2004 Matvælaráðuneytið

Viðskiptaráðherra hefur gefið Alþingi skýrslu um stjórnunarhætti fyrirtækja.

Nr. 7/2004

Skýrsla um stjórnunarhætti fyrirtækja

Viðskiptaráðherra hefur gefið Alþingi skýrslu um stjórnunarhætti fyrirtækja. Skýrsluna er að finna á heimasíðu Alþingis. Umræða um stjórnunarhætti fyrirtækja hefur verið áberandi á undanförnum missirum en með stjórnunarháttum fyrirtækja er venjulega átt við þær reglur sem gilda um stjórnun þeirra og eftirlit, m.a. tengsl stjórnarmanna og hluthafa.

Í skýrslunni er m.a. úttekt sem Lex lögmannsstofa gerði fyrir viðskiptaráðuneytið. Í úttektinni er gerð grein fyrir alþjóðlegri umræðu og setningu reglna um stjórnunarhætti og fjallað um stjórnunarhætti með hliðsjón af íslenskum hlutafélagalögum. Þá eru í skýrslunni leiðbeiningar sem Verslunarráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöll Íslands hafa sett um hlutverk og störf stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja og reglur OECD um stjórnunarhætti fyrirtækja. Að lokum er yfirlit yfir aðgerðir Kauphallar Íslands og Fjármálaeftirlitsins á þessu sviði.

Stjórnunarhættir fyrirtækja eru í sérstakri skoðun í viðskiptaráðuneytinu. Í nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi, sem viðskiptaráðherra skipaði þann 27. janúar sl., er til skoðunar hvort ástæða sé til að kveða skýrar á um ýmsar leikreglur viðskiptalífsins í löggjöf, m.a. um stjórnunarhætti fyrirtækja. Nefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. september nk.

Reykjavík, 2. apríl 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum