Alþjóðlegar kröfur um lífkenni í ferðaskilríki
Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa á vettvangi Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum verið í undirbúningi reglur sem miða að því að taka upp lífkenni í ferðaskilríki.
1. Meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í Bandaríkjunum í öryggisskyni er að taka myndir og fingraför af þeim útlendingum sem koma til Bandaríkjanna. Þessi framkvæmd hefur þó ekki tekið til ríkisborgara ríkja sem eru aðilar að samningum um undanþágur frá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna en þau ríki eru nú 27 talsins.
a) Á þessu hefur nú orðið breyting og var íslenskum stjórnvöldum hinn 2. apríl sl. kynnt ákvörðun um að teknar verði myndir og fingraför af öllum útlendingum sem koma til Bandaríkjanna frá 30. september 2004, hvort sem þeir eru undanþegnir skyldu til að hafa vegabréfsáritun eða ekki, en nú er það aðeins gert við landamæraeftirlit með þeim útlendingum sem eru áritunarskyldir. Þessi framkvæmd mun því ná til ríkisborgara fyrrnefndu ríkjanna 27 og þar með taka til þeirra Íslendinga sem ferðast til Bandaríkjanna frá 30. september nk.
b) Auk framangreindra aðgerða settu bandarísk stjórnvöld ríkjunum 27 einhliða það skilyrði fyrir undanþágu frá vegabréfsáritun að vegabréf væru tölvulesanleg, skilyrðið átti að gilda frá 1. október 2003, en gildistöku var síðan frestað til 26. október 2004. Jafnframt var gert að skilyrði, að vegabréf, sem ekki bæru vegabréfsáritun, skyldu þá einnig bera lífkenni (biometrics) í samræmi við kröfur ICAO (International Civil Aviation Organisation). Lágmarkskröfur ICAO eru um tölvulesanleg andlitseinkenni í ferðaskilríki en jafnframt er lagt til að mynd af fingraförum og/eða augneinkenni verði einnig tölvulesanleg í ferðaskilríkjum. Bandarísk stjórnvöld hafa nú nýverið kynnt að til greina komi að fresta gildistöku krafna um lífkenni í vegabréf þar til í nóvember 2006, en frestun er háð samþykki Bandaríkjaþings.
Þegar þessar bandarísku reglur um lífkenni koma til framkvæmda geta Íslendingar ekki ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar, nema þeir hafi vegabréf með tölvulesanlegum lífkennum. Nú bendir flest til þess að framkvæmd reglnanna hefjist í nóvember 2006.
2. Í Evrópusambandinu er nú til meðferðar tillaga að reglugerð um gerð vegabréfa og lýtur meginefni hennar að samræmdum öryggisþáttum í vegabréfum með hliðsjón af fyrrgreindum ICAO stöðlum. Í tillögunni er nú miðað við að í vegabréfi sé lesanleg mynd (facial image); fingrafarataka verði ekki gerð að skilyrði, en hverju og einu ríki verði í sjálfsvald sett hvaða öðrum öryggisþáttum bætt er við.
a) Framkvæmdastjórn ESB hefur komist að þeirri niðurstöðu að reglugerðin taki einnig til Schengen-ríkjanna og nái því til Íslands og Noregs. Verði tillagan samþykkt er það forsenda fyrir fullri þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu að íslensk vegabréf uppfylli þau skilyrði sem sett verða.
b) Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær ESB-reglugerðin komi til framkvæmda.
3. Á vettvangi ICAO hófust umræðu um lífkenni í ferðaskilríki á árinu 1997. Frá maí 2003 hefur ICAO lagt til sem lágmarkskröfur um öryggi í ferðaskilríkjum að andlitseinkenni (facial image) verði á tölvulesanlegu formi, en jafnframt sé æskilegt að fingraför (fingerprint image) og/eða augneinkenni (iris image) verði það einnig.
4. Með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í þessum efnum í öðrum Evrópuríkjum og Bandaríkjunum, er ljóst að íslensk stjórnvöld þurfa að ráðast í nauðsynlegar breytingar á gerð vegabréfa. Verði ekki brugðist við þessu breytta umhverfi er ljóst, að kostir Íslendinga til ferðalaga verða þrengri en ella væri. Samningar sem greiða fyrir för Íslendinga til annarra landa, Schengen-samningurinn og samningur við bandarísk stjórnvöld um undanþágu frá vegabréfsáritun, eru mikilvægir þættir, sem móta frjálsræði Íslendinga á ferðalögum. Með hertum öryggiskröfum við landamæravörslu um heim allan verður mikilvægi þess að njóta þess að ferðast í krafti slíkra samninga æ augljósara.
Þau lífkenni sem helst er rætt um í sambandi við þessa nýju tækni eru: Andlitseinkenni; augneinkenni; fingraför; lófaeinkenni; undirskrift; raddeinkenni.
Í umræðum á erlendum tungum um þessa tækni hefur á ensku verið talað um „biometric identifiers" eða „biometrics" og á norrænum málum er rætt um „biometri". Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir tillögum frá íslenskri málstöð um orð sem nota mætti á íslensku í þessu sambandi. Lagt var til að notað yrði orðið „lífkenni" og hefur ráðuneytið fallist á þá tillögu. Orðið þykir falla vel að málinu og yrði notað með sama hætti og orðin einkenni, sérkenni og auðkenni; dæmi um notkun: „Við athugun á lífkennum í skilríkjum útlendings reyndist unnt að staðfesta hver hann er."
Lífkenni í ferðaskilríkjum er aðferð til þess að bera kennsl á fólk með aðstoð tölvutækni. Það er nýtt verkfæri til að lesa staðreyndir sem fram koma í vegabréfabók og er fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir að einn einstaklingur ferðist á vegabréfi annars. Allt sem tækin lesa kemur fram í vegabréfinu, þ.e. er sýnilegt og án dulkóðunar. Mynd af vegabréfshafa hefur verið í vegabréfum frá upphafi notkunar þeirra. Lífkenni eru staðreyndir um tiltekna persónu, upplýsingar um vegabréfshafann, svo sem mynd af andlitseinkennum, fingurgómum og augneinkennum hans. Lífkenni og lestur upplýsinganna með tölvutækni, eru með sama hætti og mynd í vegabréfi er nú, hjálpartæki við landamæravörslu sem er ætlað að auka öryggi og jafnframt greiða fyrir för þeirra sem eru með rétt skilríki.
Öll vegabréf sem gefin eru út á Íslandi nú eru tölvulesanleg, en bera ekki lífkenni, hvorki andlitseinkenni né önnur. Nauðsynlegt þykir við þær aðstæður sem nú eru uppi, að gerð íslenskra vegabréfa verði breytt til samræmis við framangreinda þróun. Með slíkri ákvörðun íslenskra stjórnvalda er tekið undir viðhorf, um nauðsyn aukins öryggis og jafnframt skilvirkni við landamæravörslu, sem fram hafa komið beggja vegna Atlantshafs auk þess sem stuðlað er að samræmingu milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á þessu sviði.
Ekki hefur verið endanlega útfært af hálfu Bandaríkjamanna eða Evrópusambandsins hvaða tegundir lífkenna í ferðaskilríki verða gerðar að skilyrði. Ljóst er þó að andlitseinkenni verði lágmarkskrafa Evrópusambandsins en aðildarríkin, þar á meðal Ísland og Noregur sem aðild eiga að Schengen samningnum, þurfa að taka ákvörðun um hvaða öryggisþáttum bætt verður við. Í tillögum ICAO og Bandaríkjamanna er gert ráð fyrir, auk lágmarkskröfu um andlitseinkenni, einum til tveimur öðrum þáttum, t.d. fingraförum og augneinkennum. Gera verður því ráð fyrir að unnt verði að koma fyrir í nýjum íslenskum vegabréfum minnst tvenns konar lífkennum.
5. Slíkar breytingar á gerð vegabréfa hafa óhjákvæmilega í för með sér nokkurn kostnað. Að meginstefnu er kostnaður við framleiðslu ferðaskilríkja borinn af þeim sem óska eftir útgáfu þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því fyrirkomulagi og gera verður því ráð fyrir að verð á vegabréfum hækki til samræmis við hærri kostnað.
6. Auk aukins kostnaðar við framleiðslu nýrra vegabréfa verður einnig að gera ráð fyrir sérstökum kostnaði við endurnýjun á vél- og hugbúnaði fyrir opinbera aðila hér á landi. Annars vegar eru nauðsynleg tæki til að unnt verði að sinna eftirliti á grundvelli nýrra ferðaskilríkja þeirra sem hingað koma og hins vegar eru tæki til að unnt verði að gefa út hin nýju vegabréf fyrir Íslendinga, þ. á m. sérstökir fingrafaralesarar á öllum sýslumannsembættum landsins.
Markaðsverð á þeim tæknibúnaði sem til þarf hefur tekið örum breytingum á undanförnum mánuðum, enda æ fleiri fyrirtæki tilbúin til að taka þátt í þróun, framleiðslu og sölu þessarar nýjungar.