Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2004 Matvælaráðuneytið

Skýrsla verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Eyjafjarðar

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 9/2004

Fréttatilkynning

Skýrsla Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Eyjafjarðar

Í niðurstöðum skýrslu Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Eyjafjarðar, er lagt til að gerður verði svokallaður vaxtarsamningur frá 2004 til 2007 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða. Samningurinn taki mið af sambærilegum aðferðum, sem best hafa tekist erlendis. Einnig er að finna m.a. 20 forgangstillögur. Margar af þessum tillögum bera merki um nýjungar s.s. er varðar háskóla Sameinuðu þjóðanna, líftækninet, stjórnsýslu fiskeldismála, endurbætur í samgöngumálum, aðkomu OECD að byggðamálum og svo mætti halda áfram.

Tillögur þær sem hér eru settar fram um leiðir, eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis í fjölmenni eða fámenni, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.

Það er mat verkefnisstjórnar að Eyjafjarðarsvæðið eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir og að fyrir árið 2020 verði íbúatala Eyjafjarðarsvæðisins um 30.000.

Í maí 2002 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005. Samkvæmt henni er lagt til að unnið verði að sérstakri byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð með það að markmiði að efla þetta öflugasta þéttbýlissvæði utan höfðuborgarsvæðisins sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland. Í árslok 2002 skipaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fimm manna verkefnisstjórn til að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Í verkefnisstjórnina voru skipuð: Formaður Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Akureyri, Hilda Jana Gísladóttir, kennari og fjölmiðlamaður, Akureyri, Laufey Petrea Magnúsdóttir, aðstoðarskólameistari, Akureyri og Jón Helgi Pétursson, sparisjóðsstjóri, Grenivík. Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar voru Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti og Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun. Gert var ráð fyrir að verkefninu lyki eigi síðar en við lok ársins 2004.

Rúmlega 40 aðilar störfuðu í 7 mismunandi starfshópum á vegum verkefnisstjórnarinnar, þar sem komu að hinir ýmsu aðilar m.a. frá öðrum ráðuneytum og stofnunum þeirra, atvinnulífi, launþegum, sérfræðngar, ofl. Einnig voru fengnir erlendir sérfræðingar til landsins og farnar voru kynnisferðir erlendis. Jafnframt hafði verkefnisstjórnin samvinnu við bæjaryfirvöld og fulltrúa sveitarfélaga á svæðinu og nálægum byggðarlögum.

Þar sem þetta eru tillögur verkefnisstjórnar til ráðuneytisins, mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra á næstunni yfirfara þessar tillögur og meta þær og kalla eftir samstarfi við viðeigandi aðila, s.s. önnur ráðuneyti, bæjaryfirvöld á Akureyri, sveitarfélög á svæðinu, atvinnulíf og fl. Einnig má líta á tillögurnar sem einskonar hugmyndabanka að framkvæmdum, sem meta verður með skilvirkum og markvissum hætti á næstunni í samvinnu við ýmsa aðila.

Reykjavík, 7. apríl 2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum