Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2004 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra með íslenskum fyrirtækjum í Kína

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fer fyrir 40 manna viðskiptasendinefnd í Kína en heimsókn hennar hófst þar í dag. Er um fulltrúa 15 íslenskra fyrirtækja að ræða, sem munu kynna sér starfsemi í Kína og fara á umfangsmikla vörusýningu í Guangzhou í suður Kína. Ferðin er skipulögð af Samtökum verslunarinnar (Félag íslenskra stórkaupmanna) og Íslensk - kínverska viðskiptaráðinu. Þessi samtök hafa merkt greinilega aukinn áhuga á viðskiptum við Kína hjá félagsmönnum sínum á undanförnum misserum, en fjölmargir hafa þegar náð umtalsverðum árangri í öflun viðskiptasambanda í Kína. Þetta sést greinilega þegar skoðaðar eru tölur um innflutning frá Kína, en á síðasta ári voru fluttar inn þaðan vörur að verðmæti um 6.100 milljónir króna í samanburði við 3.800 milljónir króna árið 2000. Þessi aukning skýrist ekki hvað síst af því að gæði vara sem framleiddar eru í Kína hafa aukist mjög og eru oft fyllilega sambærilegar að gæðum og vörur sem koma frá öðrum mörkuðum. Þeir félagsmenn FÍS og Íslensk - kínverska viðskiptaráðsins sem eru þátttakendur í þessari viðskiptasendinefnd gera sér því vonir um að í ferðinni opnist ný viðskiptatækifæri, sem verða til þess að auka enn viðskipti milli landanna.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti Reykjavík 12. apríl 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum