Undirritun stjórnmálasambands
Miðvikudaginn fyrir páska (07.04.04) undirrituðu í New York þeir Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og Paul Badji, sendiherra og fastafulltrúi Senegal, samkomulag um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna. Senegal er níu milljón manna ríki á vesturströnd Afríku. Þar hefur ríkt fjölflokka lýðræði í aldarfjórðung, en efnahagur er enn bágur og landið nýtur meiri þróunaraðstoðar en flest önnur Afríkuríki.
Yfirgnæfandi meirihluti íbúa Senegal eru hófsamir múslimar og samkomulag milli trúarhópa og ættbálka er gott. Glæpatíðni er minni en í nágrannalöndum. Senegal sendi herlið til þátttöku í frelsun Kúveit fyrir 13 árum og hefur sent friðargæsluliða til aðstoðar við að koma á friði í nágrannalöndum.