Umræða um umferðaröryggi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Við umræður um umferðaröryggi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í morgun, miðvikudag, kynnti Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands þau áform íslenskra stjórnvalda að stefnt verði að umtalsverðri fækkun umferðarslysa á Íslandi næstu tíu árin.
Ísland er meðflytjandi tillögu Ómans um samræmt átak allra landa heims til bættrar umferðarmenningar. 1.2 milljónir manna láta lífið í umferðinni á ári hverju, 90 af hundraði þeirra í þróunarlöndunum þar sem umferðarmenningu er áfátt og litlar kröfur gerðar um öryggi bíla og umferðarmannvirkja.
Þótt talið sé að umferðarmál séu fyrst og fremst innanríkismál hvers lands, þá er eru þau orðin ein af alvarlegustu ógnum sem steðja að heilbrigði þjóða, ekki síst hinna fátækari.
Tjón alþjóðasamfélagsins af völdum umferðarslysa er metið á um 500 milljarða dollara á ári, en það eru næstum því tvöhundruðföld framlög til rekstrar S.þ. og allrar friðargæslu á þeirra vegum.