Dagar umhverfisins í Smáralind
Kveðja frá umhverfisráðherra
25. apríl er Dagur umhverfisins. Þennan dag árið 1762 fæddist SveinnPálsson, fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn og sá maður sem einna fyrstur hvatti til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi og orðaði þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun. Ákveðið var að halda Dag umhverfisins hátíðlegan þann 25. apríl ár hvert til þess að minnast lífsstarfs hans og hugsjóna.
Umhverfisfræðsluráð starfar líka af hugsjón og tekur nú upp á þeirri nýbreytni að boða til sýningarinnar Dagar umhverfisins. Markmiðið með sýningunni er að fræða um umhverfismál á breiðum grundvelli. Ég fagna framtaki ráðsins og vona sannarlega að sem flestir fái góðar hugmyndir og fræðist um hið gróskumikla umhverfisstarf sem fram fer hér á landi.
Ég vil þakka þeim fjölmörgu aðilum sem kynna vörur sínar, þjónustu og starfsemi á sýningunni fyrir framlag þeirra til umhverfismála og óska ykkur öllum til hamingju með sýninguna.
Á Degi umhverfisins veitir umhverfisráðuneytið viðurkenningu sína Kuðunginn til fyrirtækis sem skarar fram úr á sviði umhverfis-mála og fer afhendingin fram á sýningunni að þessu sinni.
Gleðilegt sumar
Siv Friðleifsdóttir
Dagskrá
Laugardagur, 24. apríl.
kl. 11:30 Umhverfisráðherra opnar sýninguna og Arnarvefinn - upplýsingavef um haförninn.
kl. 15:00 Tískusýning frá L12. Verslun Rauða kross Íslands með notaðan fatnað.
Sunnudagur, 25. apríl. Dagur umhverfisins.
kl. 13:30 Umhverfisráðherra afhendir viðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn og opnar vef með upplýsingum um fyrirtæki og umhverfismál
kl. 15:00 Tískusýning frá L12. Verslun Rauða kross Íslands með notaðan fatnað.
Vetrargarðurinn
- Kynningarbásar frá yfir 30 fyrirtækum, stofnunum og samtökum.
- Góði hirðirinn nytjahlutamarkaður Sorpu og góðgerðarsamtaka sýnir notuð húsgögn sem verða til sölu.
- Hoppukastali fyrir börnin.
Sumargarðurinn
- Hópbílar bjóða upp á sýnikennslu í vistakstri í samvinnu við Ökukennarafélag Íslands
- Rauði krossinn tekur á móti notuðum fötum. Látum fötin ganga aftur.
- Vetnisvagn frá Strætó bs
- Hópbílar bjóða upp á "rútubíla-kareoke".
- Bifreið frá G. Tyrfingsson verður til sýnis.
Opnunartími
Sýningin verður opin sem hér segir:
Laugardaginn 24. apríl kl. 11:00 – 18:00.
Sunnudaginn 25. apríl kl. 13:00 – 18:00.
Alcan á Íslandi hf: Kynnir umhverfislega kosti áls, sem oft hefur verið kallað „græni málmurinn”.
Beluga: Fyrirtæki með umhverfisstefnuvottun kynnir nýtt umhverfisöryggis- og gæðastjórnunarkerfi.
Biobú ehf.: Veitir upplýsingar um lífræna ræktun og kynnt verðurframleiðsla á lífrænni jógúrt.
ENJO á Íslandi ehf.: Kynnir umhverfisvænar hreingerningavörur.
G. Tyrfingsson ehf.: Grænir og góðir hópferðabílar og menningartengd ferðaþjónusta.
Gámaþjónustan: Pappírsflokkun á gæðapappír, bylgjupappa, blönduðum pappír og prentsmiðjupappír sem fluttur er út til endurvinnslu.
Græni Hlekkurinn: Kynning á sölufyrirkomulaginu „Grænmeti í áskrift” - Lífrænt ræktað grænmeti beint til neytenda.
Hólaskóli og Ferðaþjónusta bænda: Kynna samstarf sitt á sviði umhverfisvænnar ferðaþjónustu og þátttöku í „Green Globe 21” sem eru alþjóðleg félaga- og vottunarsamtök.
Hópbílar hf.: Umhverfisstjórnun í ferðaþjónustu.
ÍSÍ, Ísland á iði: Kynnir fyrirtækjakeppnina „Hjólað í vinnuna” 17.- 28. maí.
Landvernd og Vistvernd í verki: Vísa veginn til sjálfbærari lífsstíls.
Metan hf.: Bifreið sem nýtir íslenskt vistvænt eldsneyti.
Morgunblaðið kynnir umhverfisstefnu sína og árangur í umhverfismálum.
Móðir Jörð: Kynnir lífrænt ræktuð matvæli frá Vallanesi á Fljótsdalshéraði.
Námsgagnastofnun kynnir námsefni sem tengist umhverfismennt. Heimsækið heimasíðu okkar www.nams.is - skemmtileg leið til að læra
Náttúrufræðistofnun Íslands: Jarðhitakort af Íslandi 1:500 000. Borgarholt í Kópavogi, gróðurkort 1:500. Arnarvefurinn - nýr upplýsingavefur um haförninn.
Neytendasamtökin: Upplýsingar um starfsemi samtakanna með sérstakri áherslu á þá þætti er lúta að umhverfismálum.
Orkuveita Reykjavíkur: Umhverfisvæn lífsgæði í sátt við náttúruna.
P. Samúelsson hf.: Kynnir Toyota Prius sem gengur bæði fyrir bensíni og rafmagni.
Prentsmiðjan hjá Guðjón Ó hf.: Vistvæn prentvinnsla með norræna umhverfismerkinu Svaninum.
Prentsmiðjan Oddi: Umhverfisstefna Odda verður kynnt og nýr bæklingur sem ber nafnið „Umhverfisvænt fyrir framtíðina”.
Rauði kross Íslands: Fatasöfnun og endurnýting hans.
SORPA bs.: Flokkun úrgangs og þjónusta endurvinnslustöðva.
Staðardagskrá 21: Áætlun um sjálfbæra þróun samfélaga á 21. öldinni.
Strætó bs.: Notkun vetnis við rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Tæknival: Umhverfisvænn tölvubúnaður og prentlausnir.
Umhverfisfræðsluráð: Kynnir starfsemi sína og vef með upplýsingum um fyrirtæki og umhverfismál.
Umhverfisráðuneytið: Kynnir náttúruverndaráætlun, starfsemi stofnana sinna og ráðuneytisins.
Umhverfisstofnun: Hvað getur þú gert til að stuðla að sjálfbærri þróun, öryggi neytenda og heilnæmu umhverfi? Kynning á norræna umhverfismerkinu, Svaninum.
UMÍS ehf.: Environice veitir ráðgjöf um stjórnun umhverfismála, byggða á víðtækri yfirsýn, fjölþættri reynslu og sérþekkingu á sviði sjálfbærrar þróunar.
Veraldarvinir: Skipuleggja náttúruverndarverkefni svo sem hreinsun stranda, lagningu gönguleiða og plöntun með íslenskum og erlendum sjálfboðaliðum.
Vottunarstofan Tún ehf.: Vottun lífrænna afurða og vottunarmerki fyrir lífræna framleiðslu.
Yggdrasill: Lífrænar matvörur, hreinlætis- og snyrtivörur.
Ökukennarafélag Íslands: Kynnir vistakstur (Eco-Driving)
Frá Umverfisfræðsluráði
Það er Umhverfisfræðsluráð sem boðar til sýningarinnar Dagar umhverfisins. Ráðið er skipað af umhverfisráðherra og eftirtaldir aðilar tilefna fulltrúa sinn í ráðið: Alþýðusamband Íslands, Kennaraháskóli Íslands, menntamálaráðuneytið, Námsgagnastofnun, Neytendasamtökin, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, umhverfisráðuneytið og umhverfisverndarsamtök.
Markmið Umhverfisfræðsluráðs með sýningunni Dagar umhverfisins er tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa sýnishorn af þeirri vitundarvakningu sem er í umhverfismálum hér á landi, sérstaklega í atvinnulífinu. Í öðru lagi að hvetja almenning til þess að huga að umhverfismálum í daglegu lífi sínu því
það er margt sem við getum gert án mikillar fyrirhafnar sem kemur okkur og umhverfinu til góða. Með því að huga að umhverfissjónarmiðum í innkaupum og neyslu hvetjum við fyrirtæki að gefa þeim meiri gaum og leggjum lítið lóð á vogarskál betra umhverfis.
Máltæki frá Kenýa skýrir hugtakið „sjálfbær þróun“ á lýsandi hátt, en það hljóðar svo: „Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar, við höfum hana að láni frá börnunum okkar“. Ef við höfum þessa speki að leiðarljósi í daglegu lífi og við nýtingu auðlinda okkar og afkomendanna munum við eiga bjarta framtíð kynslóð eftir kynslóð.
Ráðið þakkar styrktaraðilum sýningarinnar fyrir þeirra framlag og þeim fjölmörgu sem greitt hafa götu ráðsins við undirbúning sýningarinnar.
Velkomin á sýninguna Dagar umhverfisins
Umhverfisfræðsluráð
Upplýsingar fyrir sýnendur
Umsókn um bás og skilmálar vegna básaleigu
Hvað? Umhverfisfræðsluráð stendur fyrir sýningu í tilefni af Degi umhverfisins 25. apríl, helgina 24.-25. apríl, þar sem fyrirtækjum og fleiri aðilum stendur til boða að sýna ýmis konar umhverfisvæna vöru og þjónustu, eða kynna starf sitt að umhverfismálum á annan hátt. Ráðið hefur tryggt sér stuðning nokkurra fyrirtækja sem styrktaraðila að sýningunni en þau eru Alcan á Íslandi, Árvakur hf. útgáfufélag Morgunblaðsins, Hópbílar hf , Orkuveita Reykjavíkur, Prentsmiðjan hjá Guðjón Ó hf , SORPA bs og umhverfisráðuneytið. Umhverfisráðherra mun opna sýninguna og veita viðurkenningar í tilefni af Degi umhverfisins á sýningunni.
Hvers vegna? Markmiðið með sýningunni er að skapa vettvang þar sem almenningur fær tækifæri til þess að kynna sér vörur og þjónustu þar sem hugað er sérstaklega að umhverfismálum. Með þessu vonast Umhverfisfræðsluráð til þess að efla áhuga neytenda á að skipta við vistvæn fyrirtæki og að láta sig umhverfissjónarmið varða í innkaupum og daglegu lífi. Auglýst var eftir sýnendum í Morgunblaðinu mánudaginn 8. mars sl. Sýningin er haldin í nafni Umhverfisfræðsluráðs og er ekki ætlað að skila hagnaði.
Hvenær? Helgina 24. - 25. apríl. Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur í sjötta sinn þann 25. apríl n.k. Opnunartími Smáralindar er frá 11 - 18 á laugardögum og 13 - 18 á sunnudögum og verður sýningin opin á sama tíma.
Hverjir sýna? Öll fyrirtæki sem hafa áhuga á að sýna geta tekið þátt, svo lengi sem starfsemi þeirra vörur eða þjónusta tengist á einhvern hátt þema sýningarinnar og húsrúm leyfir. Þar á meðal eru fyrirtæki sem selja umhverfisvæna vöru og þjónustu, fyrirtæki sem hafa sett sér umhverfisstefnu og/eða lagað rekstur sinn að umhverfiskröfum og fyrirtæki sem selja vörur sem hvetja til umhverfisvænni lífsstíls. Einnig er stofnunum og félögum boðið að kynna starf sitt að umhverfismálum.
Hverjir koma? Vonandi sem flestir! Um venjulega helgi koma 20 - 30.000 manns í Smáralindina. Engin aðgangseyrir er á sýninguna og efnt verður til viðburða sem gætu hvatt fólk til að mæta. Umhverfisfræðsluráð mun kynna sýninguna eftir fremsta megni með auglýsingum og uppákomum. Afhending viðurkenninga umhverfisráðherra í tilefni af Degi umhverfisins vekur ávallt athygli fjölmiðla en hún fer fram á sýningunni í ár.
Hvað kostar? Kostnaður við leigu er 10.000 kr. á fermetra. Stærð básanna verður 2 til 8 fermetrar. Básarnir verða með lýsingu og merktir sýnanda en tómir að öðru leyti. Sýnendur sjá um að setja upp efni í básnum og manna þá.
Hverjir standa fyrir sýningunni? Umhverfisfræðsluráð er samráðsvettvangur opinberra aðila og hagsmuna- og félagasamtaka um umhverfisfræðslu og er skipað af umhverfisráðherra. Ráðið heldur úti vefsíðunni umvefur.is og hefur m.a. staðið fyrir fjórum vel sóttum ráðstefnum um umhverfisfræðslu. Sýningin er hugsuð sem liður í starfi ráðsins til þess að fræða almenning um umhverfismál.
Hvernig tek ég þátt? Með því að fylla út umsókn um básaleigu. Samið hefur verið við Gestamótttökuna ehf, um að um að innheimta leigu, að raða sýnendum niður á bása og verður tengiliður við sýnendur varðandi hagnýt atriði. ([email protected], sími 551 1730).
Einnig er velkomið að hafa samband við formann Umhverfisfræðsluráðs, Ingibjörgu Ólafsdóttir , sími 545 8600, ef einhverjar spurningar vakna.
Hvernig verður sýningin auglýst? Umhverfisfræðsluráð mun auglýsa sýninguna með vefauglýsingum og auglýsingum í fjölmiðlum. Magn auglýsinga verður í hlutfalli við fjölda sýnenda. Sýnendur eru hvattir til þess að minna á þátttöku sína með eigin auglýsingum.
Styrktaraðilar: Til þess að tryggja fjárhagslegan grundvöll sýningarinnar sem er ekki ætlað að skila hagnaði var leitað eftir styrktaraðilum. Samið hefur verið við þessi fyrirtæki um að vera styrktaraðilar sýningarinnar: Alcan á Íslandi, Árvakur hf. útgáfufélag Morgunblaðsins, Hópbílar hf , Orkuveita Reykjavíkur, Prentsmiðjan hjá Guðjón Ó hf , SORPA bs og umhverfisráðuneytið.