Afhending trúnaðarbréfs
Benedikt Ásgeirsson, sendiherra, afhenti í dag Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Suður-Afríku með aðsetur í Mósambík. Ísland og Suður-Afríka tóku upp stjórnmálasamband árið 1994 eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin.
Suður-Afríka gegnir lykilhlutverki í hópi Afríkuríkja bæði á sviði stjórnmála og efnahagsmála. Það hafði forystu í mótun NEPAD (New Partnership for African Development) árið 2002 en helstu markmið þess eru að Afríka taki meiri þátt í alþjóðaviðskiptum og leggi aukna áherslu á lýðræðislegt stjórnarfar, mannréttindi og átakavarnir í Afríku. Þjóðarframleiðsla Suður-Afríku nemur 25% af heildarþjóðarframleiðslu Afríkuríkja og 45% allrar iðnaðarframleiðslu í Afríku er í Suður-Afríku. Nú eru nýafstaðnar þing- og fylkiskosningar í landinu og er það í þriðja skiptið sem kosið er frá afnámi aðskilnaðarstefnunnar. Í þessum kosningum bætti ANC (African National Congress) við fylgi sitt og fékk 69,6% atkvæða. Fljótlega mun Suður-Afríka halda uppá 10 ára afmæli lýðræðis í landinu.
Útflutningur Íslands til Suður-Afríku er einkum tækjabúnaður á sviði fiskvinnslu og helstu innflutningsvörur þaðan eru léttvín, ávextir og grænmeti.