Vísindadagur 24.apríl 2004
Vísindavika norðurslóða stendur nú sem hæst á Hotel Nordica í Reykjavík. Á morgun, 24. apríl, verður haldinn svonefndur Vísindadagur undir yfirskriftinni aðlögun að loftslagsbreytingum. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Norðurskautsráðsins, flytur opnunarávarp á Vísindadegi. Í ávarpi sínu mun utanríkisráðherra meðal annars gera grein fyrir umfangsmiklu mati Norðurskautsráðsins á loftslagsbreytingum á norðurslóðum og mögulegum áhrifum þeirra. Athuganir þessar staðfesta að hlýnun á norðurslóðum er bæði meiri og örari en annarsstaðar í heiminum og getur gefið glögga vísbendingu um það sem koma skal á öðrum svæðum. Í ávarpi sínu mun utanríkisráðherra jafnframt gera aukið samstarf á sviði loftslagsbreytinga að tillögu sinni og fjalla um mögulegan þátt Norðurskautsráðsins í því.
Að loknu ávarpi utanríkisráðherra verða flutt margvísleg erindi um aðlögun að loftslagsbreytingum út frá sjónarhóli náttúru- og félagsvísinda.
Meðfylgjandi er dagskrá Vísindadags, sem er öllum opinn.