Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Frábær árangur íslenskra verkefnisumsókna um styrki úr starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins

Mánudaginn 26. apríl sl. samþykkti stjórnarnefnd Leonardo da Vinci starfsmenntaáætlunar Evrópusambandsins styrkupphæðir til þátttökulanda áætlunarinnar fyrir árið 2004.

Mánudaginn 26. apríl samþykkti stjórnarnefnd Leonardo da Vinci starfsmenntaáætlunar Evrópusambandsins styrkupphæðir til þátttökulanda áætlunarinnar fyrir árið 2004. Ísland fékk að þessu sinni tæpar tvær milljónir evra í sinn hlut en það er langhæsta upphæð sem Ísland hefur fengið úthlutað úr áætluninni síðan Ísland hóf þátttöku árið 1995.

Styrkupphæðin, 1.795.519 evrur, dreifist á milli 5 verkefnishugmynda en alls voru sendar inn 6 hugmyndir að verkefnum. Þetta er eitt hæsta árangurshlutfall nokkurs þátttökulands í ár. Verkefnin sem um ræðir eru svokölluð tilraunaverkefni en þau miða að því að þróar nýjar leiðir og verkfæri til að stuðla að fjölbreytni í starfsmenntun og starfsþjálfun og auka færni og þekkingu almennra starfsmanna. Styrkupphæðir til einstakra verkefna eru frá 21 milljón til 37 milljóna. Verkefnin sem hljóta styrk eru:

  • Lesblinda fullorðinna – ný viðtalstækni og skimunarpróf til að greina lesblindu fullorðinna - Háskóli Íslands
  • Starfsendurmenntun fyrir öryrkja - Skóla- og félagsþjónusta Þingeyinga
  • Einstaklingsmiðað stuðningskerfi fyrir nemendur í brottfallshættu - Háskólinn í Reykjavík
  • Nám án orða – ný námsaðferð fyrir nemendur í leirlistardeild - Myndlistaskólinn í Reykjavík
  • CEReS - Fölmenningarlegt og starfstengt námsefni í ensku - Háskólinn á Akureyri

Áhugi á mannaskiptastyrkjum aldrei meiri

Umsóknarfrestur um mannaskiptaverkefni er einnig nýliðinn. Umsóknir að þessu sinni voru 32 og hafa aldrei verið fleiri. Af því má sjá að áhugi Íslendinga á möguleikum Evrópustyrkja í starfsmenntun er sífellt að aukast. Í apríl var kunngert um úthlutun verkefna og fengu 20 fyrirtæki, skólar og stofnanir styrki til að senda nemendur, kennara og starfsmenn í starfsþjálfun og heimsóknir í 1 viku til 9 mánuði . Styrkþegar munu sækja starfsþjálfun sína til 13 Evrópulanda.

Landsskrifstofa Leonardó á Íslandi hefur umsjón með framkvæmd áætlunarinnar á Íslandi. Landsskrifstofan er til húsa hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar um áætlunina er að finna á heimasíðu Landsskrifstofu Leonardó, www.leonardo.is



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum