Styrkir til framhaldsnáms í Japan
Japönsk stjórnvöld bjóða fram tvo styrki handa Íslendingum til framhaldsnáms við háskóla í Japan. Styrkur er veittur til tveggja ára til þeirra sem hefja nám í apríl 2005 en til 18 mánaða til þeirra sem kjósa að hefja nám í október 2005. Flugfargjöld og skólagjöld eru greidd. Ennfremur fá styrkþegar greiddan mánaðarlegan styrk að fjárhæð 175.000 yen sem er nálægt 110 þúsund krónum, auk ákveðinnar fjárhæðar við komuna til landsins.
Umsækjendur um Monbukagakusho styrk þurfa að hafa lokið B.A. eða B.S. gráðu áður en framhaldsnámið hefst og hafa a.m.k. sextán ára skólagöngu að baki. Umsækjendur geta aðeins sótt um nám í sínum sérgreinum eða á skyldum sviðum. Skilyrði er að þeir séu fæddir 2. apríl 1970 eða síðar. Umsækjendum er bent á að hafa samband við japanskan háskóla sem þeir hyggjast hefja nám við og fá kennara þar til að gefa út staðfestingu á skólavist. Upplýsingar um skóla og prófessora má fá hjá sendiráði Japans.
Sendiráð Japans hefur samvinnu við menntamálaráðuneyti og má fá umsóknareyðublöð á báðum stöðum en umsóknum þarf að skila til sendiráðsins í síðasta lagi 21. júní nk. Viðtöl við umsækjendur um þessa tvo styrki verða tekin í ágústmánuði. Nánari upplýsingar fást hjá Sendiráði Japans, netfang: [email protected], sími: 510-8600 eða hjá menntamálaráðuneytinu, netfang: [email protected], sími: 545-9500.