Fundur nefndar S.þ. um sjálfbæra þróun í New York
Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir tekur þátt í fundi nefndar S.þ. um sjálfbæra þróun sem hófst í New York í dag 28. apríl og stendur til föstudagsins 30. apríl. Fundinn sækja rúmlega 80 ráðherrar og hafa aldrei fleiri ráðherrar sótt fundi nefndarinnar frá því hún var stofnuð árið 1993.
Á fundinum er rætt um framkvæmd samþykkta Jóhannesarborgar-ráðstefnunnar sem haldin var árið 2002, einkum þeirra er snúa að verndun ferskvatns, hreinlætismálum og byggða- og þéttbýlismyndun. Markmið Jóhannesarborgarfundarins voru m.a. að fækka um helming þeim sem búa við skort á öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu í heiminum.
Við upphaf fundarins í dag lagði Siv Friðleifsdóttir áherslu á framkvæmd alþjóðlegrar áætlunar um varnir gegn mengun sjávar frá landi, en með henni má bæði draga úr mengun hafsins, auka hreinlæti og vernda ferskvatn. Framkvæmd áætlunarinnar er því mikilvægt skref í að ná markmiðum Jóhannesarborgarfundarins.
Einnig lagði umhverfisráðherra áherslu á lykilhlutverk kvenna í þróunarríkjunum við að ná settum markmiðum, en konur sjá að verulegu leyti um öflun vatns til heimilishalds og hreinlæti í þróunarríkjunum. Því væri grundvallaratriði að bæta menntun kvenna og styrkja stöðu þeirra í samfélaginu og við alla ákvarðanatöku.