Ísland í forystu á norðurslóðum
Dagana 4. og 5. maí 2004, verður haldinn, á Hótel Selfossi, þriðji fundur Norðurskautsráðsins undir formennsku Íslands í ráðinu. Aðildarríki ráðsins eru Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð.
Á fundinum verður meðal annars fjallað um væntanlegar skýrslur Norðurskautsráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum, sem lagðar verða fram á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Norðurskautsráðsins í nóvember nk. Ennfremur verður lagður grunnur að áframhaldandi umfjöllun á vettvangi Norðurskautsráðsins um viðbrögð við loftslagsbreytingum í formi stefnumótandi tillagna.
Gerð verður grein fyrir umfangsmikilli skýrslu um mannlíf á norðurslóðum, sem formennska Íslands í ráðinu beitir sér fyrir. Skýrslan verður gefin út í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðins í haust.
Auk þess verður fjallað um starfsemi Norðurskautsráðsins á sviði umhverfismála, mengunarvarna, lífríkisverndar og aðgerða til að bæta lífskjör fólks á norðurslóðum. Greint verður frá niðurstöðum Vísindadaga norðurslóða sem haldnir voru í Reykjavík 21.-28. apríl sl., í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, og rætt um áherslur Norðurskautsráðsins við undirbúning alþjóðlegs árs heimskautasvæðanna sem haldið verður 2007-2008.
Sérstaklega verður fjallað um notkun upplýsingatækni á norðurslóðum og lagðar fram tillögur að verkefnum á þessu sviði. Ísland hefur í formennsku ráðsins lagt sérstaka áherslu á bætt aðgengi byggðarlaga á norðurslóðum að upplýsingatækni og aukna þjónustu á því sviði, t.d. í formi fjarkennslu og fjarlækninga.
Fundinn sækja háttsettir fulltrúar aðildarríkja ráðsins og frumbyggja á norðurslóðum, auk vísindamanna og sérfræðinga, alls á annað hundrað manns.
Formaður embættisnefndar Norðurskautsráðsins er Gunnar Pálsson, sendiherra.
Stefnt er að ráðherrafundi Norðurskautsráðsins 24. nóvember 2004, í Reykjavík.
Dagskrá fundarins er meðfylgjandi.