Fundur utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Hollands
Nr. 19
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Bernard Rudolf Bot ,utanríkisráðherra Hollands, en Ísland fer með formennsku EES ráðsins á síðari hluta ársins og Holland fer á sama tíma með formennsku í ESB. Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslur í formennskutíð landanna.
Halldór Ásgrímsson tók sérstaklega upp áhyggjur EFTA ríkjanna af umfjöllun ESB um mögulegar hömlur á innflutningi eldislax frá Íslandi og Noregi. Lagði ráðherra áherslu á að slíkar aðgerðir stríddu gegn ákvæðum EES samningsins og myndu hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt laxeldi. Ráðherra tók einnig upp yfirstandandi loftferðasamninga ESB við Bandaríkin og áréttaði mikilvægi þess að sambandið hefði náið samráð við EFTA ríkin um þessa samninga. Flugfélög í EFTA ríkjunum og sérstaklega á Íslandi störfuðu í ríkjum ESB og væri því mikilvægt að nýir samningar af þessu tagi tækju fullt tillit til réttinda þessara félaga. Þá ræddu ráðherrarnir ýmis alþjóðamál, s.s. baráttuna gegn hryðjuverkum, hlutverk Íslensku friðargæslunnar í Afganistan, ástandið í Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 04. maí 2004.