Hoppa yfir valmynd
5. maí 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vel heppnuð lesskimun í grunnskólum

Úttekt á lesskimunarprófinu Læsi í 1. og 2. bekk grunnskóla.

Í skólastefnu sem lögð var til grundvallar við gerð nýrra aðalnámskrá, sem gefnar voru út 1999 var áhersla lögð á að staða nemenda skyldi greind frá upphafi grunnskóla til að unnt væri að koma betur til móts við þarfir hvers og eins. Markmiðið var að bjóða öllum sex ára börnum að taka lesskimunarpróf til þess að meta líkur á lestrarörðugleikum nemenda þegar við upphaf skólagöngu og bregðast við, áður en í óefni væri komið.

Árið 2000 samdi menntamálaráðuneytið við Guðmund B. Kristmundsson og Þóru Kristinsdóttur dósenta við Kennaraháskóla Íslands um að styrkja útgáfu á lesskimunarprófum fyrir 1. og 2. bekk grunnskóla sem þau þýddu og staðfærðu að norskri fyrirmynd. Um er að ræða þrjú lesskimunarpróf fyrir 1. bekk og tvö fyrir 2. bekk sem hægt er að nota til að meta stöðu nemenda og í kjölfarið laga kennslu að þörfum þeirra eða vísa þeim til frekari greiningar ef þurfa þykir. Einnig fylgdu leiðbeiningar um fyrirlögn, eyðublöð til að skrá niðurstöður og ítarlegt hugmyndahefti fyrir kennara. Lesskimunarprófin hafa staðið skólum til boða án sérstaks endurgjalds undanfarin þrjú ár og verið lögð fyrir rúmlega 20 þúsund nemendur. Námsgagnastofnun var falið að sjá um prentun og útgáfu prófanna.

Breyting var gerð á reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla 2003 og þar segir í 2. gr. að á fyrstu árum skólagöngu skulu skóla kanna hvaða nemendur eigi í erfiðleikum með lestrarnám, bregðast við því með kerfisbundnum hætti og sjá til þess að öll börn fái nauðsynlega aðstoð til að ná viðunandi lestrarfærni. Til að framfylgja þessu ákvæði eru lesskimunarprófin nauðsynleg tæki.

Síðastliðið haust fól menntamálaráðuneytið skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri að gera úttekt á notagildi umræddra lesskimunarprófa og reynslu af notkun þeirra. Markmið úttektarinnar var m.a. að kanna afstöðu kennara til prófanna, hvernig fyrirlögn prófanna væri háttað, hvernig niðurstöður þeirra væru nýttar og kynntar foreldrum. Einnig var leitað svara við spurningunni hvort prófin séu líkleg til að finna nemendur með lestrarörðugleika og hver áhrif þeirra eru á kennsluna.

Meginniðurstaða úttektarinnar er að lesskimunarprófið Læsi þykir gott tæki til að nota við lesskimun við upphaf grunnskóla. Markmið prófanna er að finna nemendur sem eiga við lestrarörðugleika að stríða þannig að hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana strax í upphafi skólagöngu. Höfundar úttektarskýrslunar telja Læsi hafa alla burði til að ná settu markmiði og telja helstu kosti Læsis vera að prófið sé fjölbreytt og innihaldi prófþætti sem gefi góðar vísbendingar um lestrarerfiðleika. Lesskimunarprófið Læsi telst því gott tæki til að nota við lesskimun í grunnskólum.

Í ljósi niðurstöðu úttektar telur menntamálaráðuneytið mikilvægt að Læsi verði áfram notað í grunnskólum til að unnt verði að halda áfram markvissri lesskimun og lestrarkennslu í samræmi við markmið aðalnámskrár.

Úttektarskýrslan er aðgengileg á vef ráðuneytisins: menntamalaraduneyti.is.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum