Afhending trúnarbréfs
Eiður Guðnason, sendiherra, afhenti í dag forseta Víetnams, Tran Duc Luong, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með búsetu í Peking. Var hann einn af sex sendiherrum sem afhendu forseta landsins trúnaðarbréf í dag.
Í samtali að afhendingu lokinni lýsti forseti Víetnam yfir miklum áhuga á auknu samstarfi landanna, ekki síst á sviði sjávarútvegs og viðskipta. Hann minntist opinberrar heimsóknar Davíðs Oddsonar, forsætisráðherra, til Víetnam ásamt fjölmennri viðskiptasendinefnd árið 2002 og nefndi að forsætisráðherra Víetnam hefði heimsótt Ísland nokkrum árum fyrr.
Í Hanoi eru nú hátíðarhöld í tilefni þess að á morgun, 7. maí, eru 50 ár liðin frá því að síðasta vígi Frakka féll, Dien Bien Phu, þegar Frakkar biðu endanlegan ósigur í Indókína og þessa er minnst með margvíslegum hætti í höfuðborginni þessa dagana.
Eiður mun einnig í ferðinni til Hanoi eiga viðræður við aðstoðarviðskiptaráðherra Víetnam og hitta sjávarútvegsráðherra landsins að máli.