Hoppa yfir valmynd
6. maí 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nr. 7/2004. Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið hefur birt nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2004 og 2005 auk framreikninga fram til ársins 2010. Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Nýtt hagvaxtarskeið hófst árið 2003 sem ekki sér fyrir endann á næstu 5-6 ár. Í fyrra mældist 4% hagvöxtur og samkvæmt spánni er gert ráð fyrir 4½% hagvexti í ár og 5% hagvexti árið 2005. Árið 2006 er fjórða árið í röð þar sem spáð er yfir 4% hagvexti. Næstu ár þar á eftir er talið að hagvöxturinn verði heldur minni, eða rétt undir 3%.
  • Meginskýringin á miklum hagvexti næstu ár er annars vegar mikil aukning fjárfestingar vegna stóriðjuframkvæmdanna og hins vegar áframhaldandi mikill vöxtur einkaneyslu. Þessir þættir skýra einnig aukinn viðskiptahalla sem nær hámarki á árunum 2005-2006 þegar hann verður hátt í 100 milljarðar króna. Þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur dregur verulega úr viðskiptahallanum á nýjan leik.
  • Samhliða auknum umsvifum í efnahagslífinu dregur úr atvinnuleysi sem talið er minnka úr 3% af mannafla árið 2004 í 2¾% árið 2005. Jafnframt má búast við að verðbólga verði heldur meiri en verið hefur að undanförnu og gæti farið upp í 3% á árinu 2005.
  • Árið 2003 var níunda árið í röð sem kaupmáttur launa eykst og er reiknað með að sú þróun haldi áfram. Kaupmáttur ráðstöfunartekna er talinn munu aukast um 2% árið 2004 og 2¾% árið 2005 sem meðal annars má rekja til áhrifa fyrirhugaðra skattalækkana.
  • Efnahagshorfur fram til ársins 2010 hafa breyst í veigamiklum atriðum. Nú er ekki lengur gert ráð fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar þess að stóriðjuframkvæmdum lýkur árið 2007 heldur spáð áframhaldandi hagvexti á bilinu 2½-3% allt tímabilið 2007-2010.
  • Mikilvæg forsenda áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum næstu ár er að fylgt verði aðhaldssamri stefnu í peninga- og ríkisfjármálum í samræmi við það sem gengið er út frá í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Nánari upplýsingar um spána veitir Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9171 eða 862 0017.

Skýrslan í heild sinni er birt hér.

Fjármálaráðuneytinu, 6. maí 2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta