Stofnun stjórnmálasambands
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og Joseph Christmas, sendiherra og fastafulltrúi Sankti Kristófer og Nevis, undirrituðu í New York 5. maí 2004, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna.
Sankti Kristófer og Nevis er liðlega 40 þúsund manna ríki á tveimur eyjum í Karíbahafi, fyrrum bresk nýlenda og vinsæll áfangastaður ferðafólks. Önnur meginstoð efnahagslífs eyjanna, sykurrækt, hefur orðið fyrir miklum sveiflum í heimsmarkaðsverði og hefur atvinnulíf og efnahagur landsins orðið fyrir búsifjum vegna þess óstöðugleika. Jarðhiti er á eyjunum og möguleikar á eflingu fiskveiða.
Að undanförnu hefur verið lögð áhersla á að styrkja tengsl Íslands við smærri eyríki og samtök þeirra og er unnið að því að stofna til stjórnmálasambands við þau öll.