Hoppa yfir valmynd
7. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málefni heimilislausra

Þann 3. maí boðaði félagsmálaráðherra til fundar með fulltrúum félagsþjónustunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði um málefni heimilislausra. Á fundinn komu einnig fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og lögreglunnar í Reykjavík. Tilefni fundarins var upplýsingar sem birtust í svari félagsmálaráðherra til Alþingis við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um fjölda og aðstæður heimilislausra. Þar kom fram að á höfuðborgarsvæðinu er hópur fólks heimilislaus. Við nánari athugun er hér um ræða um það bil 50 manns, með ólíkar þarfir og mismunandi bakgrunn. Félagsmálaráðherra telur brýnt að leitað verði leiða til að koma til móts við þarfir þessara einstaklinga.

Á fundinum var einnig rætt um að efna til samvinnu ofangreindra aðila með það að markmiði að koma í veg fyrir heimilisleysi fólks hér á landi. Heimilisleysi meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu er ekki nýtt af nálinni en engu að síður tímabært að bregðast við því með skipulögðum hætti og samstilltu átaki. Vandinn er margþættur og lausn finnst ekki án þess að félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og löggæslan vinni saman. Því hafa þessir aðilar ákveðið að stofna samráðshóp um þessi mál og verður fyrsta verkefnið að komast að sameiginlegri niðurstöðu um skilgreiningu á hugtakinu heimilisleysi og taka síðan saman yfirlit yfir þá einstaklinga sem hér er átt við. Enn fremur að greina við hvaða aðstæður hver og einn býr og í framhaldi af því að setja fram áætlun um viðbrögð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum