Hoppa yfir valmynd
11. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Vitneskja um pyndingar í Írak

Íslandsdeild Amnesty International sendi út fréttatilkynningu 10. maí sl. þar sem greint er frá rannsóknum og skýrslum sem samtökin hafa gefið út um ástand mannréttinda í Írak á undanförnu ári og vísað til bréfs sem sent var til utanríkisráðherra dags. 23. febrúar sl. Í fréttatilkynningunni er fullyrt að “Íslenskum stjórnvöldum mátti vera vel kunnugt um ásakanir Amnesty International um pyndingar í Írak”. Slík staðhæfing í nafni svo virtra samtaka vekur furðu.

Fyrrnefnt bréf Íslandsdeildar Amnesty International er hefðbundið í aðdraganda árlegs fundar Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og hefur jafnan af íslenskum stjórnvöldum verið talið gagnlegt framlag til undirbúnings þátttöku í störfum ráðsins. Í bréfinu var vakin athygli á helstu forgangsmálum samtakanna og viðtökuríki hvött til að fylgja þeim eftir en bent skal á að meðferð fanga í Írak var ekki nefnd með einu orði. Í fylgiskjali með bréfinu, þar sem fjallað er um meint mannréttindabrot í átján ríkjum, er sérstakur kafli um Írak. Í þessu 90 bls. skjali er í rúmlega tíu línum mjög almenn lýsing á ásökunum um pyntingar og misþyrmingar bandalagshermanna þar sem t.d. hvergi er minnst á Abu Ghraib-fangelsið í Baghdad. Í fylgiskjalinu eru þessar ásakanir algerlega órökstuddar og í litlu frábrugðnar öðrum fréttaflutningi frá Írak sem erfitt hefur verið að sannreyna hverju sinni.

Það er hlutverk Alþjóðanefndar Rauða krossins að kanna og gera skýrslur um aðbúnað og meðferð þeirra einstaklinga sem falla undir ákvæði Genfar-sáttmálanna enda eru það einu samtökin sem hafa bolmagn og nauðsynlegt aðgengi til viðeigandi eftirlits. Slíkar skýrslur eru jafnan trúnaðarmál og í þessu tilviki hafa íslensk stjórnvöld ekki fengið vitneskju um efni skýrslna varðandi Írak nema að því leyti sem birst hefur í fjölmiðlum.

Vinnubrögð Íslandsdeildar Amnesty International valda vonbrigðum vegna þess að utanríkisráðuneytið hefur lagt sérstaka áherslu á gott samráð og samstarf við stofnanir og félagasamtök sem starfa á sviði mannréttindamála. Nefna má að ráðuneytið hefur meðvitað fylgt eftir öllum níu forgangsmálum sem deildin setti fram í ofangreindu bréfi. Utanríkisráðuneytið vill efla enn frekar samráð og samstarf við þá sem láta sig mannréttindamál varða en það verður að vera á faglegum forsendum því ella er hætt við að hvort tveggja íslensk stjórnvöld og samstarfsstofnanir eða félagasamtök glati nauðsynlegum trúverðugleika.

Utanríkisráðherra hefur harðlega fordæmt illa meðferð á föngum bandalagshersins í Írak og lagt áherslu á að slík tilvik verði rannsökuð án tafar og brotlegir einstaklingar færðir fyrir dóm.


Hjálagt fylgir afrit af umræddu bréfi Íslandsdeildar Amnesty International til utanríkisráðherra.

Bréf Íslandsdeildar Amnesty International

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta