Hoppa yfir valmynd
13. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Grænfriðungar beita gróðaröksemdum

Í frétt í Morgunblaðsins 7. maí sl. er greint frá því að Grænfriðungar hafi staðlað bréf á íslensku, sem þeir hafa dreift í 200 þúsund eintökum til þýsks almennings með heimilisföngum Íslendinga sem þeir hafi valið af handahófi úr þjóðskrá. Í tilefni af því vill utanríkisráðuneytið benda á eftirfarandi:

Notkun félagssamtakanna á upplýsingum úr þjóðskrá með þessum hætti er óvenjuleg og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að erlend samtök hafi áður gripið til slíkra aðgerða. Hingað til hafa Grænfriðungar fyrst og fremst notað tölvupóst sem miðil til að koma mótmælum á framfæri til sendiráða Íslands eða beint til utanríkisráðuneytisins eða annarra ráðuneyta. Utanríkisráðuneytið hefur litið á slíkt sem tækifæri til að koma sjónarmiðum Íslendinga í hvalveiðumálum á framfæri við félaga viðkomandi samtaka og hefur öllum slíkum tölvupósti, alls um fimmtíu þúsund að tölu, verið svarað með upplýsingum um hvalveiðistefnu Íslendinga og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Reynslan af þessu upplýsingastarfi er góð og skilar sér í aukinni þekkingu félagasamtaka á sjálfbærri nýtingarstefnu Íslendinga.

Fram kemur í bréfi Grænfriðunga að samtökin líti á hvali sem tákn fyrir heilbrigt og náttúrulegt umhverfi. Íslensk stjórnvöld framfylgja í verki stefnu varðandi heilbrigt og náttúrulegt umhverfi með því að styðja algjöra friðun hvalategunda í útrýmingarhættu, samhliða sjálbærri nýtingu sterkra hvalastofna á borð við íslensku hrefnuna sem þola vel varfærnislega nýtingu. Engar fullyrðingar eru í bréfinu um að takmarkaðar vísindaveiðar Íslendinga ógni hvalastofnum við Íslandsstrendur, heldur bent á að meiri tekjur séu af hvalaskoðun en hvalveiðum. Slík gróðaröksemd kemur á óvart frá félagasmtökum sem kenna sig við náttúruverndarhugsjón og styðja almennt sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í raun er ekki að finna nein rök gegn hvalveiðum í bréfinu, sem þjóna mættu málstað náttúru- eða umhverfisverndar. Markmiðið með bréfsendingum þessum virðist einkum að fá sendanda til að lýsa yfir með undirskrift sinni að hann muni ekki heimsækja Ísland á meðan stjórnvöld standi að hvalveiðum.

Fullyrðingu Grænfriðunga um að veiðar á nokkrum tugum hvala af einni tegund hafi engin áhrif á stofnstærð nytjafiska er ekki unnt að skilja á annan hátt en að samtökin hafi horfið frá að halda því fram að hrefnuveiðar séu ógn við viðkvæman stofn eða stofn í útrýmingarhættu. Því ber að fagna að Grænfriðungar viðurkenni að hrefnustofninn við Ísland sé vel á sig kominn, en jafnframt er rétt að benda á að markmið hinnar íslensku rannsóknaáætlunar varðandi hrefnu er ekki að fækka í hrefnustofninum, heldur að auka vísindalega þekkingu á honum og hlutverki hans í vistkerfi hafsins.

Meðfylgjandi er til fróðleiks enskur texti með upplýsingum um hvalveiðistefnu Íslendinga sem er uppistaðan í svörum utanríkisráðuneytisins félagasamtaka og einstaklinga, sem látið hafa í ljós áhyggjur vegna vísindaveiðanna.

Upplýsingar um hvalveiðistefnu Íslendinga (á ensku)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta