Nr. 9/2004. Fundur fjármálaráðherra OECD dagana 13.-14. maí í París.
Dagana 13.-14. maí er haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Fyrri daginn fór fram aðalfundur fjármála- og efnahagsráðherra og sótti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd. Með formennsku í hópnum fer fjármálaráðherra Mexíkó en með varaformennsku fara fjármálaráðherra Íslands og efnahagsráðherra Hollands.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. um þróun og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum og um sjálfbæra þróun. Horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum hafa haldið áfram að batna, einkum í Bandaríkjunum og Asíu, en í Evrópu er hagvöxtur enn lítill. Þessi mismunur bendir til þess að enn sé þörf á kerfisbreytingum í Evrópu. Geir H. Haarde ræddi m.a. um efnahagsleg áhrif hækkunar olíuverðs á alþjóðamarkaði auk þess sem hann varaði við hugmyndum um samræmingu fyrirtækjaskatta í Evrópu.
Einnig voru framtíðarhorfur í lífeyrismálum á dagskrá en Geir H. Haarde hafði framsögu í þeim málaflokki. Fjármálaráðherra gerði á fundinum grein fyrir því hvernig Íslendingar hafa skipulagt lífeyrismálin og hvað önnur lönd gætu hugsanlega lært af reynslunni hér á landi.
Þá eiga fjármála- og heilbrigðisráðherrar sameiginlegan fund þar sem rætt verður um fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, sækir þann fund ásamt fjármálaráðherra.
Í tengslum við ráðherrafundinn var haldin árleg ráðstefna, OECD Forum, um ýmis málefni á vettvangi alþjóðaefnahags- og fjármála. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, stýrði þar m.a. umræðum um sjálfbæra þróun. Hann var einnig framsögumaður á fundi fjármálaráðherra OECD með fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins í Evrópu. Á föstudag situr fjármálaráðherra samvinnufund ráðherra OECD landa um aðgerðir gegn peningaþvætti.
Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður E. Árnadóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra (gsm 862 0028) og Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu (gsm 862 0017).
Fjármálaráðuneytinu, 13. maí 2004