Stofnun stjórnmálasambands
Þann 12. maí 2004, var í New York stofnað til stjórnmálasambands milli Íslands og Rúanda. Sendiherrar og fastafulltrúar ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Hjálmar W. Hannesson og Stanislas Kamanzi, undirrituðu yfirlýsingu þar að lútandi.
Áratugur er liðinn frá því borgarastyrjöld og þjóðarmorð hófust í Rúanda. Þjóðin hefur verið í sárum síðan en uppbyggingarstarf er hafið og Rúandamenn reiða sig á aðstoð heimsbyggðarinnar við það.
Sjálfsþurftarbúskapur er forsenda framfærslu mikils meirihluta þjóðarinnar en hafin er ræktun á kaffi og te fyrir hágæðaframleiðslu og vonir eru bundnar við þróun ferðaþjónustu, einkum safarí-ferða. Þá horfa menn einnig til fiskiræktar í vötnum, sem hugsanlegrar búgreinar.