Stofnun stjórnmálasambands
Stjórnmálasamband við Gíneu
Sendiherrar og fastafulltrúar Íslands og Gíneu hjá Sameinuðu þjóðunum, þeir Hjálmar W. Hannesson og Alpha Ibrahima Sow, undirrituðu á föstudaginn var, 14. maí, í New York yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Gínea er tæpra 8 milljón manna ríki á vesturströnd Afríku. Helstu auðlindir þess eru auðugar báxítnámur, en það er hráefni, sem notað er í álframleiðslu. Þar er einnig að finna í jörðu gull, demanta og járn.
Fiskimið eru úti fyrir ströndum landsins, en veiðileyfi seld erlendum þjóðum og heimamenn stunda ekki úthafsveiðar. Fátækt er mikil í landinu, meðalævi skömm og fæstir íbúanna eru læsir. Landið hefur þegið umtalsverða þróunaraðstoð undanfarin ár með það að markmiði að auka þjóðartekjur og bæta menntun í landinu.