Hoppa yfir valmynd
17. maí 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tímamót í aðgerðum gegn mengun umhverfisins

Í dag öðlast Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni gildi að alþjóðalögum. Hér er um tímamót að ræða því þessi samningur ræðst að rótum vandans með því að banna framleiðslu og notkun hættulegra þrávirkra efna sem brotna hægt niður í náttúrunni og geta borist langar leiðir. Íslensk stjórnvöld hafa lengi haft áhyggjur af því að þessi efni gætu valdið vaxandi ógn við íslenskar fiskafurðir ef ekkert væri að gert.

Þessi áfangi er sérstaklega ánægjulegur fyrir Ísland þar sem íslensk stjórnvöld lögðu til á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 að slíkur samningur yrði gerður og unnu að því að skapa alþjóðlega samstöðu um málið í nánu samstarfi við hin norrænu ríkin. Mikilvæg skref í undirbúningi samningsins voru tekin á alþjóðlegum fundi um varnir gegn mengun hafsins sem íslenska ríkisstjórnin bauð til í Reykjavík í mars 1995.

Samningaviðræðum lauk í Stokkhólmi og undirritaði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra samninginn fyrir Íslands hönd árið í maí 2001 ásamt fulltrúum 90 ríkja heims en Ísland fullgilti samninginn í maí 2002. 151 ríki hefur undirritað samninginn og 59 ríki fullgilt hann.

Markmiðið samningsins er að vernda heilsu manna og umhverfið gegn þrávirkum lífrænum efnum. Samningurinn tekur til 12 manngerðra efnasambanda sem sýnt er að geta valdið mjög alvarlegum áhrifum í náttúrunni ekki síst á heilsufar fólks. Farið var að nota þrávirk lífræn efni um og eftir seinni heimsstyrjöldina og hafa þau tilhneigingu til að flytjast um langan veg frá uppruna sínum og safnast upp á kaldari svæðum. Efnin geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýrarríkið í heild sinni, en ekki hvað síst á kaldari svæðum því efnin safnast fyrir í fitulagi dýranna. Áhrifin magnast þegar ofar dregur í fæðukeðjunni svo sem hjá sjávarspendýrum og ísbjörnum. Einna alvarlegast er talið að sum efnanna geta líkt eftir hormónum og valdið með því verulegu raski á hormónabúskap lífveranna. Þá geta sum þessara efna valdið krabbameini eða örvað vöxt þess.

Stokkhólmssamningurinn felur í sér víðtækt samstarf við þróunarríkin þar sem þessi efni eru enn í notkun. Alþjóðlegi umhverfisjóðurinn sem vistaður er hjá Alþjóðabankanum mun aðstoða þessi ríki við aðgerðir til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun þessara efna.

Hlutfall þrávirkra lífrænna efna sem mæld hafa verið hér í umhverfinu eru vel undir hættumörkum og er styrkur þessara efna í íslensku sjávarfangi með því lægsta sem gerist á Norð-Austur Atlantshafi og er það von íslenskra stjórnvalda að með gildistöku samningsins verði það ástand enn betur tryggt.

Fréttatilkyning nr. 19/2004
Umhverfisráðuneytið




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum