Kynning á reglugerð
Kynning
á drögum að nýrri reglugerð um vigtun sjávarafla.
Sjávarútvegsráðuneytið kynnir hér drög að nýrri reglugerð um vigtun sjávarafla. Stefnt er að því að ný reglugerð verði gefin út í lok júní n.k. Ráðuneytið vill með kynningu þessari gefa aðilum kost á því að koma með ábendingar og athugasemdir við drög þessi. Er þess óskað að þær berist ráðuneytinu eigi síðar en 10. júni n.k. Hér á eftir er fyrst rakið hvaða breytingar felist í nýju drögum og síðan eru drögin birt í heild.
Almennar athugasemdir.
Reglur um vigtun sjávarafla eru mjög mikilvægt stjórntæki til að gera yfirvöldum kleift að framfylgja þeim markmiðum sem sett hafa verið um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Aflamarkskerfið er þannig háð því að reglur um vigtun sjávarafla séu virtar. Af þeim sökum má vera ljóst mikilvægi þess að vigtun sjávarafla sé eins rétt og nákvæm og kostur er.
Núgildandi reglugerð um vigtun sjávarafla er frá árinu 1998. Hún hefur nú verðið tekin til gagngerrar endurskoðunar. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu breytingum sem fram koma í meðfylgjandi drögum að reglugerð:
1. Heilvigtun
Eitt helsta nýmælið við breytingu á reglum um vigtun sjávarafla er að úrtaksvigtun verður almennt lögð af. Miðað er við að við endurvigtun afla skuli allur afli vigtaður. Þannig er það meginmarkmið vigtunarreglna að finna eins nákvæmlega og unnt er það magn afla sem komið er með að landi hverju sinni, enda er það mikið hagsmunamál fyrir þjóðarbúið og viðkomandi útgerðarmenn að rétt og nákvæmt sé mælt.
Úrtaksvigtun sem er nú við lýði hefur ekki reynst nægilega vel. Deilur hafa verið um hversu stórt úttakið eigi að vera og margir vigtunarleyfishafar eru á þeirri skoðun að illframkvæmanlegt sé að framfylgja reglum um úrtaksvigtun. Heilvigtun afla er mun nákvæmari aðferð en sú sem nú er við lýði og því betra tæki við stjórn fiskveiða en núverandi reglur.
Þá er miðað við að eftir sem áður gildi reglur um úrtaksvigtun um afla skipa sem vinna afla um borð, vigtun rækju og hörpudisks. Í þeim tilvikum hefur úrtaksvigtun reynst ágætlega, enda mjög lítill munur á þyngd einstakra eininga og því engin sérstök þörf á að breyta þeirri framkvæmd.
2. Hækkun á frádrætti vegna íss í afla
Skilyrði um heilvigtun afla munu verða til þess að hópur þeirra aðila sem fengið geta vigtunarleyfi þrengist. Þá getur heilvigtun í ákveðnum tilvikum haft verulegt óhagræði í för með sér. Það á við þegar frágangur afla um borð í veiðiskipi er mjög góður og kaupandi hefur hagsmuni af því að fá aflann til sín í því ástandi. Til að mæta þessu óhagræði og til að stuðla að bættri aflameðferð er hækkaður heimilaður frádráttur vegna íss í afla og verður heimilt að draga frá 4% vegna áætlaðs íss.
Mjög óheppilegt er fyrir aðila sem flytja út óunninn afla að sæta því að heilvigta allan afla án íss sem kemur fullfrágenginn til útflutnings af veiðiskipi. Með tilliti til þess magns íss sem nauðsynlegt er á afla sem fluttur er úr landi er heimilaður frádráttur allt að 8% vegna áætlaðs íss.
3. Endurvigtun og heimavigtun
Þegar tekin er upp meginregla um vigtun alls afla er ljóst að gera verður ríkari kröfur til búnaðar vigunarleyfishafa. Gerð er krafa um að til staðar sé sjálfvirk vog sem vigtar allan afla með samfelldum hætti, ásamt því að heimavigtunarleyfishafar hafi búnað sem vigtar hvern fisk sérstaklega og safnar upplýsingum um vigtaðan afla s.l. þrjá mánuði.
Gert er ráð fyrir að almennt skuli senda vigtarnótu til hafnar innan þriggja virkra daga frá löndun afla. Þó er ljóst að það er ekki unnt í öllum tilvikum þar sem vigtun farmsins er hluti af vinnsluferlinu. Því er miðað við að skila skuli endurvigtunarnótu á hafnarvog innan fimm virkra daga þegar farmar eru stærri en 50 brúttótonn eða um er að ræða saltaðar afurðir. Þá er heimavigtunarleyfishafa gert skylt að brúttóvigta afla og skila niðurstöðum á hafnarvog þegar við löndun.
4. Fiskmarkaðir
Í reglugerðinni er það nýmæli að Fiskistofu er heimilt að veita fiskmörkuðum heimild til að endurvigta afla, sem landað er óslægðum, eftir slægingu á markaði og láta niðurstöðu þeirrar vigtunar gilda við skráningu afla í Lóðs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Heimild þessi er bundin við afla sem seldur er á uppboði og stuðlar að bættri aflameðferð.
Þá er fiskmörkuðum heimilt að vigta afla sem ekki er seldur á uppboði.
5. Önnur nýmæli
Af öðrum ákvæðum má helst nefna ákvæði 3. gr. um að ökumanni sé óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta, 24. gr. sem hefur að geyma reglur um vigtun á grásleppu og IX. kafli sem hefur að geyma reglur um vigtun fisks sem fangaður er til áframeldis. Aðrar breytingar eru smávægilegar.
6. Gildistökuákvæði
Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi þann 1. september 2004. Frá og með þeim tíma verður að vigta allan afla og úrtaksvigtun verður lögð af. Ákvæði um búnað vigtunarleyfishafa, taka hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar 2005. Frá þeim tíma falla gildandi vigtunarleyfi úr gildi
Sjávarútvegsráðuneytið, 19. maí 2004.