Hoppa yfir valmynd
21. maí 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Eurydice: Lykiltölur um upplýsinga- og samskiptatækni í skólum í Evrópu- Útgáfuár: 2004

Þróun margmiðlunartækninnar og Internetsins í þágu menntunar er afar mikilvægur þáttur í samstarfi um menntamál í Evrópu.

Þróun margmiðlunartækninnar og Internetsins í þágu menntunar er afar mikilvægur þáttur í samstarfi um menntamál í Evrópu. Í þessari nýju útgáfu Key Data on Information and Communication Technology in Schools in Europe 2004 eru upplýsingar Eurydice um kennslu í upplýsinga- og samskiptatækni (UST) og kennaramenntun samtvinnaðar upplýsingum sem aflað var í alþjóðlegu könnunum PISA og PIRLS. Þessar niðurstöður sýna á hvaða stigi tölvuvæðing er, þar með talinn aðgangur að Internetinu, og notkun tölvubúnaðar – hvort sem um heildarnotkun á heimilum eða í skólum er að ræða. Unnið var að þessari nýju útgáfu með styrk frá framkvæmdastjórn ESB.

Tölvuvæðing er á afar mismunandi stigi í löndunum og innan einstakra landa

Á árinu 2000 virtist tölvuvæðing í skólum enn vera á afar mismunandi stigi frá einu landi til annars. Í flestum löndum voru að meðaltali 5 til 20 nemendur um hverja tölvu við 15 ára aldur, en í fáeinum löndum voru þeir yfir 40. Fjöldi nemenda á tölvu getur verið afar mismunandi milli skóla í tilteknum löndum. Þetta á einkum við í löndum þar sem tölvuvæðing í skólum er tiltölulega skammt á veg komin. Þróun tölvuvæðingar í skólum sem og tölvuvæðing á heimilum tengist vergri landsframleiðslu.

Stigbundin tölvuvæðing, starfsfólk fyrst og síðan nemendur

Tölvuvæðing í skólum fer nokkurn veginn eins fram í öllum löndum. Í fyrstu er tölvubúnaður aðallega ætlaður skólastjórnendum og kennurum. Síðan fá nemendur aðgang að honum. Í löndum þar sem tölvuvæðing er stutt komin hafa nemendur almennt aðgang að tölvubúnaði í sérstökum tölvuverum en ekki í kennslustofunum. En í þeim löndum þar sem tölvuvæðing í skólum er lengra á veg komin má finna tölvur jafnt innan veggja kennslustofunnar sem utan.

Upplýsingatækni nýtt við kennslu annarra greina, einkum í grunnskólum

Svo að segja hvarvetna í Evrópu er upplýsingatækni hluti af námskrá nemenda. Í aðeins sjö löndum (Tékklandi, Ítalíu, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóvakíu og Búlgaríu) hefur upplýsingatækni ekki verið sett inn í námskrá í grunnskólum. Slíkt heyrir til enn meiri undantekningar í framhaldsskólum. Í mörgum löndum er sá tími sem ætlaður er til náms í upplýsingatækni sveigjanlegur. Opinberar tillögur um aðferðir á þessu sviði eru mjög svipaðar í öllum löndum. Í grunnskólum er upplýsingatækni aðallega beitt við kennslu annarra greina. Á framhaldsskólastigi, einkum í síðari hluta þess, er upplýsingatækni einnig kennd sem sérstakt fag.

Börn á aldrinum 9 til 10 ára hafa almennt aðgang að tölvu heima hjá sér

Almennt fá börn á aldrinum 9 til 10 ára að nota heimilistölvuna. Þetta á við í öllum löndum sem könnunin fór fram í, án tillits til tölvuvæðingar á heimilum. Mikill meirihluti barna í þessum aldurshópi notar tölvur (þó ekki móðurtölvur og fartölvur) til að fara í leiki. Nemendur í fjórða bekk grunnskóla segjast frekar sjaldan nota tölvur. Nærri helmingur þeirra telur sig aldrei nota þær eða nánast aldrei. Aðeins í fáeinum löndum (einkum Bretlandi og Íslandi) segist mjög hátt hlutfall skólabarna nota tölvur reglulega. Í flestum landanna er það svo að þegar nemendur í fjórða bekk grunnskóla vinna við tölvur, þá er það fyrst og fremst í ritun og upplýsingaleit. Slík notkun er mjög í samræmi við markmið og tillögur í námskrám grunnskóla.

Nemendur í framhaldsskólanámi nota tölvur oftar en nemendur í grunnskólum

Nánast tveir þriðju hlutar 15 ára nemenda segjast nota tölvur reglubundið í skólanum. Almennt er tölvunotkun fátíðust í löndum þar sem fjöldi nemenda um hverja tölvu er mikill (nema í Búlgaríu), enda þótt lítil notkun komi einnig fram í löndum þar sem tölvuvæðing er á háu stigi (frönskumælandi hluta Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi). Takmörkuð tölvuvæðing kemur því ekki endilega í veg fyrir að tölvunotkun verði fullnægjandi, og öfugt. Enda þótt 15 ára nemendur noti ekki Internetið í sama mæli og tölvur er þróunin þó almennt sú sama. Notkun Internetsins er sérlega mikil í fimm löndum (Danmörku, Austurríki, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi).



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta