Ný lög um vatnsveitur sveitarfélaga
Nýlega var afgreitt sem lög frá Alþingi frumvarp félagsmálaráðherra til nýrra heildarlaga um vatnsveitur sveitarfélaga. Lögin leysa af hólmi lög nr. 81/1991 um vatnsveitur sveitarfélaga og eru nr. 32/2004.
Þær breytingar frá eldri lögum sem felast í hinni nýju löggjöf miða einkum að því að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna. Þannig eru heimildir sveitarfélags til að ráðstafa einkarétti þess til reksturs vatnsveitu auknar í 4. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn geti falið stofnun eða fyrirtæki, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga einkarétt sinn á rekstri vatnsveitu og sölu vatns. Í 2. gr. laganna er sveitarstjórn jafnframt heimilt að ákveða rekstrarform vatnsveitu. Samkvæmt 5. gr. raforkulaga nr. 65/2003 verða virkjanaleyfi til raforkuframleiðslu aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila og er sveitarfélögum unnt eftir lagabreytinguna, ef svo ber undir, að reka í einu félagi vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu.
Með lögunum er jafnframt stefnt að því að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveita. Helsta breytingin felst í því að í 7. gr. laganna er mælt fyrir um að notkunargjald (áður aukavatnsgjald) skuli greiða af allri atvinnustarfsemi og allri vatnsnotkun sem ekki flokkast undir venjulega heimilnotkun óháð umfangi notkunarinnar. Í 10. gr. er tekið fram að heimilt er að taka tillit til fjármagnskostnaðar og fyrirhugaðs stofnkostnaðar í gjaldskrá vatnsveitu og jafnframt að skipta starfssvæði vatnsveitu í veitusvæði með sérstaka gjaldskrá fyrir hvert svæði.
Skyldur vatnsveitna eru einungis auknar á einu sviði er varðar eignarhald og viðhaldsskyldur á heimæðum þar sem í 1. mgr. 5. gr. er lagt til að sveitarfélagi sé skylt að yfirtaka heimaæð komi fram skrifleg beiðni þess efnis frá eiganda heimæðar.
Lögin eiga ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög. Á hinn bóginn kann það, með auknum sveigjanleika í rekstri og rekstrarformi, að gera sveitarstjórnum kleift að hagræða rekstri vatnsveitna.
Á vegum ráðuneytisins er nú unnið að gerð reglugerðar á grundvelli laganna og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.