Hoppa yfir valmynd
1. júní 2004 Matvælaráðuneytið

Ábyrgðarmönnum fækkar.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 11/2004

Fréttatilkynning

Ábyrgðarmönnum fækkar

Viðskiptaráðherra hefur ákveðið að unnið verði að setningu laga og reglna um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki í samræmi við tillögur nefndar sem falið var að undirbúa stefnumótun á þessu sviði. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Neytendasamtakanna, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Fjármálaeftirlitsins.

Nefndin leggur til að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga verði útvíkkað svo að það nái til fleiri þátta lánveitinga en núgildandi samkomulag og að fleiri en fjármálafyrirtæki verði aðilar að því, svo sem vátryggingafélög, lífeyrissjóðir og Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lagt er til að samkomulagið verði endur-skoðað að tveimur árum liðnum og þá verði hugað að því að setja a.m.k. hluta ákvæða þess í lög, enda verði þá komin reynsla á framkvæmd þess. Með því að setja ákvæði sem reynsla er komin á í lög, sér í lagi um upplýsingagjöf, standa neytendur á traustari grunni gagnvart lánveitendum, sem óneitanlega hafa sterkari stöðu í samningum við almenna neytendur. Þá leggur nefndin til að lög og reglugerðir um neytendalán verði endurskoðaðar, greiðslumat verði bætt og fræðsla og kynning um fjármál verði efld.

Könnun á viðhorfi almennings til bankaþjónustu sem nefndin lét gera bendir til þess að fólk sé yfirhöfuð ánægt með þjónustu banka og sparisjóða. Mikill meiri hluti er ánægður með þjónustu þessara fyrirtækja og þeir sem tekið hafa lán og keypt verðbréf hjá fjármálafyrirtækjum eru sáttir við þá þjónustu sem þeir fengu í tengslum við viðskiptin. Þó veldur það áhyggjum að aðeins helmingur lántaka fylgist vel með þróun vaxta á lánum sem þeir hafa tekið og einkum að það skuli vera fólk í yngri aldurshópunum sem fylgist ekki með vaxtaþróuninni.

Nefndin lét einnig kanna umfang ábyrgðarveitinga hérlendis og var miðað við sömu forsendur og í könnun sem gerð var árið 1996. Niður-staðan er sú að frá 1996 til 2004 hefur nokkuð dregið úr notkun ábyrgða. Ábyrgðarmenn eru nú 75 þúsund og hefur þeim fækkað um 15 þúsund frá árinu 1996. Samkvæmt könnuninni eru 24% Íslendinga á aldrinum 18–75 ára í ábyrgðum fyrir bankalánum en voru 29% árið 1996. Þó hefur ábyrgðarmönnum námslána fjölgað. Nefndin telur að þótt tekist hafi að fækka ábyrgðarmönnum sé enn mikið verk óunnið og mikilvægt að fleiri aðilar leggi hönd á plóg við að breyta gömlum viðskiptaháttum við lánveitingar hér á landi.

Skýrsla nefndarinnar og skoðanakönnunin er á heimasíðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Nánari upplýsingar veita Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða nefndarmennirnir Ólöf Embla Einarsdóttir frá Neytendasamtökunum og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.

Reykjavík, 1. júní 2004

Álit nefndarinnar.

Skoðanakönnun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta