Hoppa yfir valmynd
1. júní 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breyting á sveitarstjórnarlögum

Alþingi
Alþingi

Hinn 27. maí sl. var samþykkt á Alþingi frumvarp félagsmálaráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Efni laganna er einkum tvíþætt. Annars vegar er þar kveðið á um atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga sem fram munu fara vorið 2005 á grundvelli tillagna sameiningarnefndar, sem félagsmálaráðherra skipaði á sl. ári. Hins vegar hefur frumvarpið að geyma ýmis ákvæði sem ætlað er að sníða vankanta af gildandi sveitarstjórnarlögum. Að því er varðar sameiningarkosningar er meginefni laganna eftirfarandi:

Við sveitarstjórnarlögin bætast fjögur ný ákvæði til bráðabirgða er fjalla um gerð tillagna sameiningarnefndar og hvernig greidd verði atkvæði um þær. Miðað er við svipað fyrirkomulag og nú er í lögum um niðurstöðu atkvæðagreiðslu, þ.e. að sveitarfélög verði ekki sameinuð nema íbúar beggja eða allra sveitarfélaganna séu því fylgjandi. Það nýmæli er þó að finna í lögunum að við ákveðnar aðstæður verður skylt að endurtaka atkvæðagreiðslu innan sex vikna í sveitarfélögum þar sem tillaga sameiningarnefndar var felld. Þetta gildir ef meirihluti þeirra íbúa á viðkomandi svæði sem afstöðu taka um tillögu sameiningarnefndar lýsir sig fylgjandi sameiningu þeirra sveitarfélaga sem tillagan varðar og meirihluti íbúa í a.m.k. tveimur þessara sveitarfélaga samþykkir tillöguna. Sama kjörskrá skal gilda við báðar atkvæðagreiðslur en þessi breyting felur það í sér að íbúar sem í upphafi eru mótfallnir sameiningu eiga þess kost að endurskoða þá afstöðu sína í ljósi breyttra aðstæðna, svo sem ef útlit er fyrir að nágrannasveitarfélög muni sameinast eða fylgi við sameiningu reynist meira en búist var við.

Að lokinni síðari atkvæðagreiðslu geta sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt ákveðið sameiningu þessara sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema um sé að ræða a.m.k. 2/3 þeirra sveitarfélaga sem tillaga sameiningarnefndar varðar og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á því svæði. Í lögunum er sameiningarnefnd einnig heimilað að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld og að atkvæðagreiðsla um þá tillögu fari fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006. Nefndin mun væntanlega helst beita þessari heimild ef vilji sveitarstjórna og úrslit í atkvæðagreiðslu um fyrri tillögu benda til þess að grundvöllur sé fyrir minni sameiningu en gert var ráð fyrir í upphafi.

Aðrar breytingar sem lögin fela í sér eru einkum eftirfarandi:

Í 1. grein eru tekin af tvímæli um að á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi getur byggðarráð tekið fullnaðarákvarðanir um einstök mál án þess að vera bundin af því að ákvörðun megi ekki varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, sbr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í 2.–4. gr. eru útfærðar ítarlegar en í gildandi lögum um nefndir sveitarfélaga, m.a. varðandi kjörgengi og breytingar á nefndaskipan.

Í 5. gr. eru heimildir sveitarstjórna til ábyrgðarveitinga rýmkaðar nokkuð auk þess sem leitast er við að skýra ákvæði 6. mgr. 73. gr. laganna. Er í aðalatriðum gert ráð fyrir því að um tvenns konar ábyrgðir geti verið að ræða. Annars vegar geti sveitarstjórn samþykkt sjálfskuldarábyrgð til fyrirtækja og stofnana sem falla undir b-hluta í samstæðureikningi sveitarfélagsins og er það í samræmi við túlkun ráðuneytisins á gildandi ákvæði. Hins vegar felur ákvæðið í sér rýmkun að því leyti að gert er ráð fyrir því að sveitarstjórn geti veitt einfalda ábyrgð vegna lánveitinga til framkvæmda á vegum félaga sem sveitarfélagið á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila til að veita lögákveðna þjónustu. Skilyrði fyrir því að ábyrgðarveiting sé heimil er því í fyrsta lagi að lántakandi sé alfarið í opinberri eigu, í öðru lagi að hann sinni lögákveðinni þjónustu og í þriðja lagi að tilgangur lántöku sé að fjármagna framkvæmdir. Loks er tekið fram í ákvæðinu að allir eigendur verði að ábyrgjast lánið í samræmi við eignarhluta sinn og fellur ábyrgðin úr gildi ef breyting verður á eignarhaldi þannig að lántakandi færist að einhverju leyti í eigu einkaaðila.

Tilgangur framangreindrar breytingar er einkum sá að gera öll rekstrarform sem sveitarfélög kunna að kjósa fyrir samvinnuverkefni sín jafnsett. Nú er kveðið á um það í 5. mgr. 82. gr. laganna að sveitarsjóðir beri einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags sem þeir eru aðilar að en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu. Eðlilegt verður að telja að sambærilegar reglur séu í gildi um til dæmis sameignarfélög og einkahlutafélög sem sveitarfélögin stofna með sér til að rækja lögbundin verkefni. Rétt þykir að taka fram að ekki er ætlunin með frumvarpinu að slaka á kröfum um form ábyrgða og verður áfram þörf á því að slík ákvörðun hljóti samþykki á formlegum fundi sveitarstjórnar. Einnig verður að telja eðlilegt, þegar um verulegar skuldbindingar er að ræða, að fyrir liggi álit sérfróðs aðila um möguleg áhrif þeirra á sveitarsjóð, samanber til hliðsjónar 65. gr.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta