Alþjóðleg ráðstefna í Bonn um endurnýjanlegar orkulindir.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 12/2004
Fréttatilkynning
Dagana 1. – 4. júní er haldin alþjóðleg ráðstefna í Bonn um endurnýjanlegar orkulindir, www.renewables2004.de. Til ráðstefnunnar var boðað í framhaldi af leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn var í Jóhannesarborg haustið 2002, en þar kom fram brýn nauðsyn þess að auka hlut endurnýjanlegra orkulinda heims.
Ráðstefnuna í Bonn sóttu fulltrúar um 150 þjóða og voru þátttakendur alls um 2000.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra var fulltrúi íslensku ríkisstjórnarinnar á fundinum. Hún flutti þar ávarp þar sem vakin var athygli á sérstöðu Íslands í orkumálum, meðal þjóða heims, hvað varðar hlutfall endurnýjanlegra orkulinda. Þá ræddi hún um mikilvægi jarðhitans sem endurnýjanlegrar orkulindar. Taldi hún mikilvægt að þróunaraðstoð Íslands beindist í auknum mæli að því að styrkja jarðhitaverkefni í fátækum ríkjum, sem ættu kost á að nýta jarðhita. Greindi hún frá því að ríkisstjórnin hefði þegar samþykkt að fela jarðhitaskóla SÞ að efna til námskeiða í Austur-Afríku fyrir jarðhitasérfræðinga í þessum ríkjum.
Fleiri svipuð verkefni eru á döfinni og hugsanlega munu fleiri ríki einnig taka þátt í þeim með Íslendingum
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Reykjavík, 3. júní 2004