Hoppa yfir valmynd
8. júní 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fundur menntamálaráðherra Norðurlandanna í Reykjavík, 9. júní 2004

Fundinum stýrir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, en Íslendingar fara nú með formennsku í norrænni samvinnu.

Á morgun, miðvikudaginn 9. júní verður haldinn fundur menntamálaráðherra Norðurlanda á Hótel Nordica. Fundur ráðherranna hefst kl. 9 og stendur til kl 12:30 en honum stýrir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, en Íslendingar fara nú með formennsku í norrænni samvinnu. Á dagskrá fundarins eru fjölmörg efni til umræðu og ákvarðanir verða teknar um ýmis mikilsverð mál. Þar ber helst að nefna eftirfylgd ýmissa þátta sem varða réttindi Norðurlandabúa og verður Poul Schlüter, sérlegur erindreki Norrænu ráðherranefndarinnar, gestur fundarins. Stuðningur við námsmenn á Norðurlöndum, Norræn yfirlýsing um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun og Samstarfssamningur Norðurlanda um nám á framhaldsskólastigi verða í brennidepli á fundinum og mun Poul Schlüter gera grein fyrir þeim.

Reykjavíkuryfirlýsingin - samstarf á sviði háskólamenntunar

Norðurlöndin hafa um langt árabil haft með sér náið samstarf á sviði háskólamenntunar. Menntamálaráðherrar Norðurlanda hafa ákveðið að efla þetta samstarf enn frekar og munu á fundi sínum í Reykjavík undirrita sameiginlega yfirlýsingu um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun sem hefur hlotið heitið Reykjavíkuryfirlýsingin. Markmið hennar er að auka og efla samstarf milli háskóla og auðvelda nemendum á Norðurlöndum að stunda nám og fá viðurkenningu á námi sínu við háskóla í löndunum. Norðurlöndin hafa um nokkurt skeið tekið þátt í evrópsku samstarfi, sem byggir á svipuðum markmiðum, þ.e. Lissabon-samþykktinni og svo kallaðri Bologna-yfirlýsingu.

Með Reykjavíkuryfirlýsingunni vilja ráðherrarnir leggja áherslu á einstakt samstarf Norðurlanda á sviði háskólamála og setja ný samnorræn markmið og viðmiðunarreglur. Vonast er til þess að yfirlýsingin verði til þess að háskólar á Norðurlöndum haldi áfram að leggja sig fram um að auka og efla samstarf sín á milli á sviði æðri menntunar.

Samstarfssamningur um nám á framhaldsskólastigi

Á fundi ráðherranna 9. júní verður enn fremur undirritaður samstarfssamningur landanna um nám á framhaldsskólastigi. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæm réttindi norrænna nemenda til náms í almennum framhaldsskólum á Norðulöndum. Við inntöku skal tekið tillit til þess náms sem nemandi hefur áður lokið í heimalandi sínu. Í endurskoðaðri útgáfu samningsins hefur verið skýrt betur, til hvaða náms hann tekur og hann gerður aðgengilegri. Þá hafa verið sett inn í samninginn ákvæði sem eiga að tryggja betri upplýsingagjöf til þeirra sem efni samningsins varðar og tengja hana þátttöku landanna í menntamálasamstarfi á sviði Evrópusambandsins.

Norrænum sérfræðingahópi var vorið 2004 fengið það hlutverk að vinna að skýrslu um stuðning við námsmenn. Í áliti hópsins er lögð áhersla á að réttindi EES samningsins gilda á Norðurlöndum og jafnframt hefur dregið úr þörf fyrir reglur til að tryggja réttindi Norðurlandabúa sérstaklega. Fram kemur í áliti hópsins að norrænt samstarf sé mikilvægt þar sem Norðurlöndin hafi svipaðar reglur í þessum efnum. Einnig er talið mikilsvert að Norðurlönd geti tekið svipaða afstöðu eða túlkað lög og reglur á sambærilegan hátt.

Norrænn rannsóknavettvangur

Umræða um norrænan rannsóknavettvang mun setja sinn svip á fundinn í Reykjavík. Markmiðið er að skapa nýjan vettvang í samstarfi Norðurlandanna á sviði rannsókna og rannsóknamenntunar sem á að byggja á styrk einstakra landa hvers á sínu sviði. Fyrir liggja tillögur um endurskipulagningu rannsóknasamstarfs á Norðurlöndum með sameiningu NorFA (Norrænu akademíunnar um rannsóknamenntun) og þess hluta norræns rannsóknasamstarfs sem fallið hefur undir ráðherranefnd um menntamál og vísindi, og Norræna rannsóknaráðið (FPR). Enn fremur liggur fyrir tillaga um eflingu samstarfs og stefnumörkunar á sviði nýsköpunar á vegum norrænu iðnaðarráðherranna. Markmiðið með þessum nýju hugmyndum og tillögum er að nýta betur auðlegð Norðurlanda á sviði rannsókna og nýsköpunar, auka innbyrðis samstarf með forgangsröðun, nýta betur sameiginlegan styrk landanna og styrkja stöðu þeirra á alþjóðavettvangi.

Blaðamönnum gefst kostur á að ræða við fundarmenn á Hótel Nordica að fundi loknum kl. 12:30



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum