Hoppa yfir valmynd
15. júní 2004 Matvælaráðuneytið

Leyfilegur heildarafli á fiskveiðiárinu 2004/2005

 

 

Fréttatilkynning

 

Aflamark í aðalatriðum í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar

Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2004/2005 sem hefst þann 1. september nk. Leyfilegur heildarafli verður í öllum aðalatriðum í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Þannig verður heildarafli í þorski 205 þús. tonn, í ýsu 90 þús tonn og í ufsa 70 þús. tonn. Heildarafli í karfa er ákveðinn 57 þús. tonn til bráðabirgða í takt við 35 þús. tonna ráðgjöf í gullkarfa og 22 þús tonna áætlun fyrir djúpkarfa. Ráðgjöf fyrir djúpkarfa liggur ekki fyrir fyrr en í október. Ekki er miðað við að það takist að breyta fyrirkomulagi á úthlutun karfakvóta fyrr en í fyrsta lagi í upphafi fiskveiðiársins 1. september 2005 en um það mál er verið að fjalla í ráðuneytinu. Aflamark í grálúðu verður 15 þús. tonn í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Frávik frá ráðgjöfinni eru aðeins þau að leyfilegur heildarafli í skarkola verður 5 þús. tonn (1 þús. tonn umfram ráðgjöf) vegna væntinga um meðafla og heildarafli í rækju á djúpslóð er ákveðið 20 þús. tonn að lágmarki en tillaga Hafrannsóknastofnunar um upphafsákvörðun var 14 þús. tonn. Endanleg tillaga frá Hafrannsóknastofnun um rækjuafla liggur ekki fyrir fyrr en í haust og þá verður tekin ákvörðun um hugsanlega aukningu á leyfilegum rækjuafla eða framhald rækjuveiða í samráði við hagsmunaaðila. Þá er með sérstakri reglugerð ákveðið að auka leyfilegan heildarafla á langlúru á yfirstandandi fiskveiðiári um 200 tonn.

Jafnframt hefur sjávarútvegsráðherra undirritað reglugerð um hækkun á leyfilegum heildarafla í kolmunna á árinu 2004 en hann hækkar um 220 þús tonn í samtals 713 þús tonn. Síðustu ákvarðanir um heildarafla í kolmunna hafa fylgt því sem Evrópusambandið hefur ákveðið sem sinn kvóta, en ekki hefur tekist að semja um takmarkanir á kolmunnaveiðum og veiðiþjóðir hafa ákvarðað sér kvóta einhliða. Ákvörðun um 220 þús. tonna aukningu byggja á mati á því hversu mikið skip Evrópusambandsríkja geta veitt til viðbótar af kolmunna í framhaldi af ákvörðun sambandsins um 350 þús. tonna kvótaaukningu sér til handa.

 

Sjávarútvegsráðuneytið, 15. júní 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta