Ný lög.
Eftirtalin lög hafa verið samþykkt á Alþingi og birt í A-deild Stjórnartíðinda:
Lög um breytingu á lögum nr. 17/1991 um einkaleyfi með síðari breytingum (evrópski einkaleyfasamningurinn).
Með lögunum eru aðallega gerðar breytingar á lögum um einkaleyfi vegna aðildar Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum en auk þess eru breytingar m.a. vegna ákvæða samstarfssamningsins um einkaleyfi (Patent Cooperation Treaty-PCT), sem Ísland er aðili a,ð og samræmingar við þróun framkvæmdar á alþjóðavettvangi. Evrópski einkaleyfasamningurinn var undirritaður 1973 og gekk í gildi 1977 en var m.a. breytt árið 2000. Þá er gert ráð fyrir aðild að samningi sem snertir 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins og varðar þýðingar einkaleyfa. Utanríkisráðherra leggur fram þingsályktunartillögu sem geymir m.a. texta viðkomandi samningsákvæða.
Lög um breytingu á löggjöf um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar vegna rafrænnar útgáfu ELS-tíðinda.
Með lögunum eru gerðar breytingar á löggjöf um einkaleyfi, vörumerki og hönnun þannig að heimilt verði að gefa ELS-tíðindi út á rafrænan hátt og dreifa þeim á netinu.
Lög um breytingu á lögum nr. 78/2002 um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.
Með lögunum verða þær breytingar að við greiðslu stofnstyrkja til nýrra eða stækkaðra hitaveitna megi miða við niðurgreiðslufjárhæð 8 ára í stað 5 ára eins og nú er. Er þetta gert í því skyni að auðvelda uppbyggingu hitaveitna á þeim svæðum er nú njóta niðurgreiðslna húshitunar. Þá er ljóst að þó greiðsla stofnstyrkja til einstakra hitaveitna muni við breytingu þessa hækka verulega mun breyting þessi stuðla að því að draga úr kostnaði við niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar þegar til lengri tíma er litið. Í flögunum er einnig að finna reglu um hve stórum hluta af heildarfjárveitingu til þessa málaflokks megi ráðstafa til stofnstyrkja til hitaveitna og hve stóran skerf einstök hitaveita getur hæst fengið af fjárveitingu hvers árs.
Lög um afnám laga nr. 62/1973 um jöfnun flutningskostnaðar á sementi.
Í áliti meirihluta iðnaðarnefndar um frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins á 128. löggjafarþingi, var mælt með því að ákvæði laga um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62/1973, yrðu tekin til endurskoðunar.