Skýrsla nefndar um líffræðilega stjórnun fiskveiða
18. júní 2004
FRÉTTATILKYNNING
SKÝRSLA NEFNDAR UM LÍFFRÆÐILEGA STJÓRNUN FISKVEIÐA
Nefnd um líffræðilega stjórnun fiskveiða hefur skilað áfangaskýrslu um störf sín. Skýrsla þessi fjallar um ýmis atriði sem skipta máli fyrir stjórnun fiskveiða önnur en hin hagrænu, og megináherslan í skýrslunni er á þorskveiðar. Í inngangi skýrslunnar er vikið að nokkrum þeirra þátta sem nefndin telur að falli undir hugtakið líffræðileg fiskveiðistjórnun. Í köflunum þar á eftir er gerð stuttlega grein fyrir nokkrum forsendum núgildandi nýtingarstefnu, þróun íslenska þorskstofnsins og núverandi þekkingu á samsetningu stofnsins auk atriða sem áhrif hafa haft á sókn og sóknarstýringu.
Nefndin telur ljóst að sóknin í íslenska þorskstofninn hafi lengi verið of mikil en bein afleiðing þess er að dregið hefur úr langtímaafrakstri stofnsins. Meðalaldur og meðalþyngd einstaklinga í afla hefur farið lækkandi og jafnframt hefur orðið veruleg fækkun í elstu aldurshópum hrygningarstofns sem talið er að geti takmarkað hrygningarárangur og nýliðun, jafnvel þótt umhverfisaðstæður séu ákjósanlegar.
Þrátt fyrir að mikið verk hafi þegar verið unnið og verulegar upplýsingar liggi fyrir um stöðu og þróun íslenska þorskstofnsins síðustu áratugi telur nefndin æskilegt að skoða enn frekar ákveðin atriði sem skýrt gætu frekar stöðu stofnsins í dag og samspil þeirra breyta sem haft hafa áhrif á stofninn í gegnum tíðina, s.s. breytingar á sóknarmynstri fiskiskipaflotans, samspil afráns og fæðu, breyttrar stærðarsamsetningar í stofninum og tengsl nýliðunar og hrygningarstofns. Nefndin bindur einnig vonir við að niðurstöður yfirstandandi rannsókna á erfðafræðilegum breytileika þorsksins, bæði hér heima og erlendis, muni skýra mikilvæga þætti sem nauðsynlegt er að taka mið af við frekari mótun fiskveiðistjórnunar.
Vísbendingar um áhrif veiða á erfðafræðilegan breytileika fiskistofna er atriði sem nefndin telur nauðsynlegt að huga að á næstu árum. Jafnframt ber að huga að áhrifum vaxandi þorskeldis og þá ekki síst hugsanlegum áhrifum kynbætts eldisfisks, sem nú er stefnt að að byggja upp, á villta stofna.
Einn af óvissuþáttum er tengjast nýtingu lifandi auðlinda á miðunum umhverfis Ísland eru bein og óbein áhrif veiðarfæra á nytjastofna, aðrar lífverur og umhverfi þeirra. Í grófum dráttum má segja að áhrifin séu þríþætt: Í fyrsta lagi bein áhrif veiðarfæranna á botn, botndýralíf og aðrar lífverur en rannsóknir á þessum þáttum hafa til þessa verið fremur takmarkaðar. Í öðru lagi er það kjörhæfni veiðarfæranna, þ.e. hæfni þeirra til þess að veiða fisk af ákveðinni tegund og ákveðnum stærðarflokki. Hérlendis hafa takmarkaðar rannsóknir farið fram á kjörhæfni veiðarfæra sem og afdrifum eða lífslíkum fisks sem sleppur úr dregnum veiðarfærum, s.s. út um möskva eða skiljur eða fer undir fótreipi (e. hidden mortality). Afdrif þess fisks geta haft nokkur áhrif á afrakstur nytjastofns, einkum ef lífslíkur hans minnka verulega þrátt fyrir að hann sleppi úr veiðarfæri. Þá er einnig mikilvægt að leita leiða til að draga úr aukaafla annarra tegunda en þeirra sem sérstaklega er sótt í. Meðferð afla og aðstæður um borð í veiðiskipum kunna að vera þannig að þær bjóði ekki upp á vinnslu og nýtingu verðmæts meðafla og því tapist verðmæti. Ávinningur aukinnar kjörhæfni veiðarfæra er því ótvíræður.
Takmörkuð þekking á kjörhæfni og virkni veiðarfæra er jafnframt einn af óvissuþáttum í spám um þróun stofna. Því er talin þörf á að afla ítarlegra gagna um val veiðarfæra út frá stærð, aldri og kynþroskahlutfalli helstu nytjastofna en þessi gögn geta aukið nákvæmni og áreiðanleika þeirra líkana sem beitt er til þess að spá fyrir um þróun stofna.
Við mótun þeirra verkefna sem nefndin leggur áherslu á og eru tiltekin hér á eftir eru þrjú meginatriði höfð að leiðarljósi. Í fyrsta lagi skulu verkefnin miða að því að varpa skýrara ljósi á þróun og núverandi stöðu fiskistofna. Í öðru lagi skulu þau hafa það að markmiði og auka þekkingu okkar í því skyni að bæta stöðu þeirra í náinni framtíð og í þriðja lagi skal hagnýting niðurstaðna skapa möguleika til verðmætaaukningar afla umfram væntanlegan ávinning af stækkun fiskistofna.
Tillögur nefndarinnar um áframhaldandi störf:
Íslenski þorskstofninn
- Að áhersla verði lögð á að efla rannsóknir sem varpað geta skýrara ljósi á erfðafræðilegan fjölbreytileika innan íslenska þorskstofnsins og hugsanlega skiptingu hans í undirstofna og að niðurstöðum þeirra rannsókna verði miðlað jafnóðum til nefndarinnar. Í framhaldinu vill nefndin, með aðstoð sérfræðinga á þessu sviði, meta hugsanleg áhrif skiptingar stofnsins niður í undirstofna, sé sú raunin, á stjórnkerfi fiskveiða almennt. Auk þess hefur nefndin í hyggju að draga saman og yfirfara niðurstöður erlendra rannsókna.
- Jafnóðum og skýrari mynd liggur fyrir varðandi erfðafræðilegan fjölbreytileika íslenska þorskstofnsins og hugsanlega skiptingu hans niður í skilgreinda undirstofna vill nefndin, með aðstoð sérfræðinga á þessu sviði, leggja mat á áhrif sóknarmynsturs fiskiskipaflotans og leggja fram tillögur í því skyni að viðhalda þeim erfðafræðilega breytileika sem stofninn býr yfir.
- Nefndin telur mikilvægt að samhliða erfðafræðirannsóknum þá verði rannsökuð tengsl erfðafræðilegs breytileika við vinnslugæði og efnasamsetningu hráefnis. Þannig verði lögð áhersla á tengingu erfðafræðirannsókna við heildarafkomu sjávarútvegssins.
- Nefndin telur mikilvægt að efla merkingarannsóknir og aðrar rannsóknir sem geta gefið upplýsingar um útbreiðslu, far og skörun þorska úr aðskildum undirstofnum í tíma og rúmi.
- Nefndin telur ákaflega mikilvægt að gögn frá fyrri hluta síðustu aldar sem til eru um þorsk á Hafrannsóknastofnuninni og tengjast aldursamsetningu afla, meðalþyngd eftir aldri og kynþroskahlutfall verði skráð í gagnagrunna stofnunarinnar og gerð aðgengileg til samræmdrar úrvinnslu á þróun stofnsins á síðustu öld. Jafnframt telur nefndin áríðandi að fyrir liggi aðgengilegt tölulegt mat á sögulegri stærð veiði- og hrygningarstofns ásamt upplýsingum um forsendur og gögn sem notuð eru á hverjum tíma.
- Nefndin telur mikilvægt að flýta og efla rannsóknir sem miða að því að meta hvort marktækar breytingar hafi orðið á mikilvægum eiginleikum stofnsins, svo sem aldri við kynþroska og meðalvexti. Þannig leggur nefndin áherslu á hafin verði vinna við gerð líkana til að meta áhrif sóknar og valvirkni veiðarfæra á meðalþyngd og kynþroskahlutfall eftir aldri og þar með mögulegan hámarksafrakstur úr stofninum til lengri tíma litið. Reynt verði jafnframt að meta hvort hætta sé á óafturkræfum erfðafræðilegum breytingum á vöxt og kynþroska.
- Eins telur nefndin mikilvægt að efla rannsóknir sem geta sagt til um hvort umtalsverðar breytingar hafi orðið á erfðasamsetningu stofnsins á síðustu öld.
- Að meta hvort hægt sé og hagkvæmt að breyta veiðimynstri þorskveiðiflotans þannig að dregið verði úr hlutfallslegu veiðiálagi á ungan hraðvaxta fisk, t.d. með stækkun möskva í botnvörpu, notkun stærri króka við línuveiðar, lokun helst uppvaxtarsvæða þorsks fyrir öllum veiðum eða afnámi línuívilnunar.
- Eitt af þeim verkefnum sem nefndin vill leggja sérstaka áherslu á er að skoða hvort rétt sé að leggja meiri áherslu á öflun gagna sem tengjast líffræðilegum kennitölum. Hluti þeirrar vinnu fælist í því að meta hvort og með hvaða hætti hægt væri að beita þeim upplýsingum sem þau gögn gæfu til bættrar fiskveiðistjórnunar og aukins afraksturs íslenska þorskstofnsins. Í því sambandi verði sérstaklega skoðað hvort öflun viðbótargagna í tengslum við líffræðilegar kennitölur gæti styrkt frekar þau gögn sem þegar er aflað í því skyni að efla ráðgjöf. Jafnframt vill nefndin meta hvort hagnýta megi líffræðilegar kennitölur í því skyni að aðlaga slægingarstuðla ástandi fiskjar hverju sinni.
Veiðar og veiðarfæri
- Nefndin telur ástæðu til fara yfir þau gögn og þær skýrslur sem fyrir liggja, innlendar og erlendar, um áhrif veiðarfæra á botn og botndýralíf. Vinna nefndarinnar gæti helst falist í því að meta mikilvægi viðkvæmra búsvæða sem hafi sérstakt gildi fyrir uppvaxandi fisk og hugsanleg áhrif röskunar þeirra á afrakstur fiskistofna.
- Nefndin leggur þunga áherslu á að gerðar verði ítarlegar samanburðarrannsóknir á kjörhæfni veiðarfæra. Í þeim rannóknum verði lögð áhersla á rannsóknir sem miði að því að meta gagnsemi smáfiskaskilja, hefðbundinna möskva og leggglugga með afdrif og lífslíkur þess fisks sem sleppur í huga. Í þeim rannsóknum skuli jafnframt meta hugsanleg áhrif smáfiskaskilja á hráefnisgæði.
- Þá leggur nefndin til að farið verið út í ítarlegar samanburðarrannsóknir á áhrifum mismunandi veiðarfæra og meðferðar og frágangs afla á hráefnisgæði og verðmæti hráefnis.
Nýting og gæði afla
- Þegar liggur fyrir samantekt Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á magni og gæðum aðgengilegra gagna sem varpað gætu ljósi á náttúrulegan breytileika hráefnisgæða íslenska þorskstofnsins. Í þeirri samantekt kemur fram að veruleg vinna mun fara í að taka fyrirliggjandi gögn saman og samræma niðurstöður þeirra auk þess sem samanburðarhæfni gagnanna er ekki áreiðanleg þar sem þeim hefur verið safnað á mismunandi tímabilum með mismunandi aðferðum. Nefndin leggur því til að gert verði átak í því skyni að afla frekari upplýsinga um áhrif náttúrulegs breytileika, veiðiaðferða, og meðhöndlunar afla á gæði og verðmæti afurða mikilvægustu nytjastofna okkar.
Nefndin telur að til að uppfylla flest þau atriði sem fram koma í skipunarbréfi hennar þurfi ofangreindar upplýsingar að liggja fyrir að hluta eða öllu leyti.
Í nefndinni sátu:
Tryggvi Þór Herbertsson, formaður
Árni Bjarnason
Björn Ævarr Steinarsson
Elínbjörg Magnúsdóttir
Guðrún Marteinsdóttir
Kristján Þórarinsson
Oddur Sæmundsson
Sjöfn Sigurgísladóttir
Tumi Tómasson
Sjávarútvegsráðuneytið, 18. júní 2004.