Opnun sendiskrifstofa í Úganda og Malaví
Utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) hafa ákveðið að gera umdæmisskrifstofur stofnunarinnar í Úganda og Malaví að sendiskrifstofum Íslands eins og fram kom í skýrslu Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á Alþingi 6. apríl sl. Opnun sendiskrifstofu Íslands í Úganda fer fram í höfuðborginni Kampala þann 22. júní og opnun sendiskrifstofu Íslands í Malaví í höfuðborginni Lilongwe þann 30. júní. Árni Magnússon félagsmálaráðherra mun fyrir hönd utanríkisráðherra formlega opna sendiskrifstofu Íslands í Malaví, en ráðherrann verður þar staddur í opinberri heimsókn.
Markmiðið með breytingum umdæmisskrifstofa ÞSSÍ í sendiskrifstofur Íslands er að efla tengsl við þessi samstarfslönd Íslands í þróunarsamvinnu enn frekar og styrkja stöðu umdæmisskrifstofa ÞSSÍ og starfsmanna þeirra gagnvart stjórnvöldum. Jafnframt munu umdæmisstjórar ÞSSÍ öðlast diplómatísk réttindi, sem mun gera þeim auðveldara að haga samskiptum og sinna störfum sínum á vettvangi þróunarsamvinnu.
Umdæmisstjórar hljóta titil staðgengils sendiherra (chargé d´affaires ad interim), en sendiherra Íslands gagnvart ríkjunum verður eftir sem áður staðsettur í Mósambík. Umdæmisstjórar ÞSSÍ í Úganda og Malaví eru Ágústa Gísladóttir og Þórdís Sigurðardóttir, en sendiherra Íslands er Benedikt Ásgeirsson.