Hoppa yfir valmynd
23. júní 2004 Matvælaráðuneytið

Ný lög.

Lög nr. 68 7. júní 2004 um breytingu á lögum nr. 134 22. desember 1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.

Lögin miða að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópusambandsins 2001/95/EB frá 3. desember 2001, um öryggi vöru.

Tilskipun 2001/95/EB felur í sér endurskoðun á tilskipun 92/59/EBE frá 29. júní 1992 um öryggi framleiðsluvöru, en núgildandi ákvæði laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu eru íslensk innleiðing á ákvæðum þeirrar tilskipunar.

Breytingar með lögunum snúa að því að aðlaga íslensk lög að umræddri tilskipun um vöruöryggi og er markmið breytinganna að auka öryggi neytenda.

Lögin öðlast þegar gildi.

Lög nr. 72 7. júní 2004 um uppfinningar starfsmanna.

Markmið laganna, sem svipar mjög til löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum, er í stuttu máli að setja réttarreglur um uppfinningar starfsmanna þar sem tekið er tillit til hagsmuna bæði atvinnurekanda og starfsmanns. Með setningu laganna næst að ekki er nauðsynlegt að aðilar semji um öll atriði sín á milli, t.d. um rétt starfsmanns til uppfinningar, sem hann kemur fram með, og framsalsrétt atvinnurekanda til uppfinningarinnar gegn sanngjörnu endurgjaldi.

Lögin mæla svo fyrir að starfsmaður geti ekki fyrir fram afsalað sér rétti til að sækja um einkaleyfi á svokölluðum biðtíma meðan atvinnurekandi athugar hvort hann vill neyta framsalsréttar á uppfinningu starfsmannsins nema starfsmaðurinn sé ráðinn til þess að vinna að uppfinningum. Enn fremur koma fram almennar viðmiðanir um ákvörðun á sanngjörnu endurgjaldi fyrir uppfinningu sem er ófrávíkjanleg regla nema starfsmaður sé ráðinn til þess að vinna að uppfinningum en þá má semja um að sanngjarnt endurgjald felist í ráðningarkjörum einvörðungu. Þá er ógilt hvert það samkomulag milli atvinnurekanda og starfsmanns er takmarkar rétt starfsmannsins til að ráðstafa þeim uppfinningum sem verða til meira en ári eftir formleg starfslok.

Almennt eru lögin þó frákvíkjanleg með samningum við einstaka stafsmenn eða jafnvel kjarasamningum.

Lögin taka til starfsmanna almennt, þar með talið starfsmanna sem sinna vísindastörfum við háskóla eða aðra skóla á háskólastigi, svo og opinberar rannsóknarstofnanir. Í Danmörku eru hins vegar tvenn lög um þessa starfsmenn. Að lokum takmarkast lögin við einkaleyfishæfar uppfinningar og ná því ekki til tölvuforrita, viðskiptaaðferða sem slíkra, hönnunar né hugverka sem uppfylla ekki skilyrði einkaleyfisumsóknar en eru þó hagnýtanleg.

Lögin taka gildi 1. janúar 2005.

Nánari upplýsingar veitir Jón Ögmundur Þormóðsson.

Lög nr. 75 7. júní 2004 um stofnun Landsnets hf.

Lög þessi eru hluti af nýrri skipan raforkumála. Í tillögum meirihluta nefndar er skipuð var til þess m.a. að gera tillögur um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað er m.a. lagt til að ríkið hafi forgöngu um stofnun hlutafélags þess er skuli annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003.

Nauðsynlegt þykir að stofnun hlutafélagsins sé lögmælt og var lagafrumvarp um þetta efni lagt fram. Gert er ráð fyrir að eftir stofnun hlutafélagsins Landsnets hf. skipi iðnaðarráðherra stjórn til bráðabirgða. Hlutverk hennar verði að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja, auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa skv. lögum um hlutafélög. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin sitji þar til endanlega niðurstaða fæst um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu.

Lög þessi eru fremur einföld að gerð enda er réttindum og skyldum flutningsfyrirtækis raforku lýst í III. kafla raforkulaga nr. 65/2003.

Lögin öðlast þegar gildi.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum