Hoppa yfir valmynd
26. júní 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fréttatilkynning

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hélt í dag til Malaví þar sem hann mun m.a. eiga viðræður við félagsmálaráðherra Malaví um nánara samstarf á sviði félagsmála, einkum er varðar velferð barna og fjölskyldna. Þá mun ráðherra eiga fund með nýkjörnum forseta Malaví, Dr. Bingu wa Mutharika og opna nýja sendiskrifstofu Íslands í höfuðborg landsins, Lilongwe.

Heimsókn félagsmálaráðherra stendur m.a. í tengslum við að félagsleg verkefni Íslendinga í Malaví standa nú á tímamótum. Á meðan ráðherrann var formaður stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands var hrundið af stað umfangsmiklu fullorðinnafræðsluverkefni í héraðinu umhverfis Monkey Bay í Malaví og var það verkefni hið fyrsta sinnar tegundar á verkefnalista ÞSSÍ í landinu. Verkefnið hefur vaxið mjög hratt og nær nú til um 50 þorpa með fleiri hundruð þátttakendum. Óháð sérfræðileg úttekt stendur fyrir dyrum þar sem m.a. verður stefnt að því annars vegar að kanna árangurinn af verkefninu og hins vegar að marka stefnu í samvinnu við malavísk stjórnvöld um framhald samstarfs við ráðuneyti félags- og fullorðinnafræðslumála. Heimsókn ráðherra er í beinum tengslum við það verkefni og er fyrirhugað að hann undirriti samkomulag um frekara samstarf milli félagsmálaráöuneytisins á Íslandi og félagsmálaráðuneytis Malaví.

Í heimsókn sinni mun Árni auk þess kynna sér framgang félagslegra verkefna Íslendinga í landinu og vígja skólabyggingu sem ÞSSÍ hefur reist í Msakaþorpi, m.a. með stuðningi íslenska félagsmálaráðuneytisins. Skólinn mun rúma 1200 börn.

Þá hefur aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Sigurjón Örn Þórsson, átt á síðustu dögum í viðræðum fyrir hönd ráðherra við félagsmálayfirvöld í Uganda en þar er sams konar umfangsmikið fullorðinnafræðsluverkefni í gangi á vegum Íslendinga, sem hlotið hefur mikið lof ugandískra stjórnvalda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum