Hoppa yfir valmynd
28. júní 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reykjavíkurborg fær Staðardagskrárverðlaunin 2004

Þórólfur Árnason, borgarstjóri tekur við Staðardagskrár 21 verðlaununum fyrir hönd Reykjavíkurborgar 25/06/2004.
Thorolfur og Siv 25 júní 2004

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra afhenti Þórólfi Árnasyni borgarstjóra Staðardagskrárverðlaunin 2004 í Café Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal þann 25. júní sl.

Viðurkenningin var veitt í fyrsta sinn vorið 2000 en þá hreppti Snæfellsbær aðalverðlaunin. Árið 2001 fékk Mosfellsbær verðlaunin, Akureyrarbær árið 2002 og loks Hafnarfjarðarbær árið 2003. Í ár eru Staðardagskrárverðlaunin veitt í fimmta sinn og sagði umhverfisráðherra meðal annars þetta í ávarpi sínu af þessu tilefni:

"Mörg sveitarfélög á Íslandi hafa unnið ötullega að umhverfismálum síðustu árin undir merkjum Staðardagskrár 21. Þess vegna er það alls ekki auðvelt verkefni að tilnefna eitt sveitarfélaga sem öðrum fremur á skilið að fá viðurkenningu sem þessa. En þegar litið er yfir sviðið er þó ljóst, að nokkur hópur sveitarfélaga hefur skorið sig úr og myndað öfluga forystusveit í þessu mikilvæga starfi. Nokkur þeirra hafa þegar verið nefnd, en fleiri eiga fast sæti í forystusveitinni.

Stýrihópur Staðardagskrár 21 á Íslandi hefur ákveðið að Reykjavíkurborg hljóti Staðardagskrárverðlaunin 2004 „fyrir markviss og vönduð vinnubrögð í Staðardagskrárstarfinu 1998-2004".

Reykjavíkurborg er það sveitarfélag á Íslandi sem á lengst samfellt starf að baki við gerð og eftirfylgni Staðardagskrár 21. Borgin gerðist aðili að Álaborgarsáttmálanum 1997 og má segja að þá hafi starfið hafist formlega. Þetta var nokkrum mánuðum áður en skipulögðu Staðardagskrárstarfi var hleypt af stokkunum af umhverfisráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nokkru síðar var dr. Hjalti Guðmundsson ráðinn til borgarinnar sem verkefnisstjóri Staðardagskrár 21. Hjalti hefur gegnt þessu starfi síðan og verið í hópi nokkurra atorkusamra einstaklinga sem hafa haldið lífinu í starfi sveitarfélaganna að sjálfbærri þróun og bryddað upp á nýjum hugmyndum og verkefnum.

Frá afhendingu Staðardagskrár 21 verðlaunanna í Grasagarðinum 25/06/2004Vegna stærðar sinnar er Reykjavíkurborg ólík öðrum sveitarfélögum á Íslandi. Það gefur auga leið að sveitarfélag með á annað hundruð þúsund íbúa hefur meira afl til verka en þau sem fámennari eru. Á hinn bóginn getur stærðin verið ákveðin hindrun við að ná sambandi við íbúana og virkja þá til þátttöku. Eins er ákvarðanataka gjarnan þyngri í vöfum eftir því sem stjórnkerfið er stærra. Þessar hindranir hefur borginni þó tekist að yfirstíga. Á árinu 2000 var gerð ítarleg skoðanakönnum á viðhorfum almennings í borginni til umhverfismála, og síðar hafa verið haldin allmörg íbúaþing í hverfum borgarinnar, þar sem íbúar hafa fengið tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Þessi þátttaka almennings er einmitt einn mikilvægasti hornsteinninn í áætlunargerð í anda sjálfbærrar þróunar.

Of langt mál yrði að telja upp öll þau verkefni sem Reykjavíkurborg hefur ráðist innan ramma Staðardagskrárstarfsins í borginni. Þar má þó meðal annars nefna:

  • umhverfisvef borgarinnar, sem nú er hluti af vefsvæði Umhverfis- og heilbrigðisstofu,
  • virka þátttöku borgarinnar í starfi ICLEI, sem eru alþjóðasamtök sveitarfélaga um sjálfbæra þróun,
  • umhverfisstjórnunarkerfi, sem byggt hefur verið upp fyrir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur,
  • skólavist, sem er umfangsmikið umhverfisverkefni á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur,
  • verkefni á sviði vistvænna innkaupa
  • árvissa þátttöku í evrópsku samgönguvikunni og bíllausa deginum
  • og vinnu við grænar lykiltölur

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti fyrstu útgáfu Staðardagskrár 21 6. febrúar 2001. Nú er vinna við endurskoðun Staðardagskrárinnar að hefjast af fullum krafti. Sú áhersla sem borgin leggur á að viðhalda Staðardagskránni sem lifandi plaggi er staðfesting á þeim mikla og góða vilja sem hér er til góðra verka. Það er mér sönn ánægja að afhenda fulltrúa Reykjavíkurborgar Staðardagskrárverðlaunin 2004. "

Fréttatilkynning nr. 26/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta