Samkomulag um rekstur og fyrirkomulag vaktstöðvar siglinga
Fréttatilkynning
Nr. 8/ 2004
Í dag mánudaginn 28. júní munu Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra staðfesta samning er undirritaður verður milli Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar hf. og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar annars vegar og Siglingastofnunar hins vegar um rekstur og fyrirkomulag vaktstöðvar siglinga. Þá verða einnig undirritaðir tveir samningar milli Neyðarlínunnar hf. og Flugfjarskipta ehf. um kaup á fjarskiptabúnaði og rekstarþjónustu.
Með þessum samningi er þeim merka áfanga náð að allir aðilar sem koma að neyðarþjónustu við sæfarendur sameinast um eina samræmda vaktstöð. Landhelgisgæslan og Neyðarlínan hf. munu reka vaktstöðina sameiginlega og um leið mun vaktþjónusta sjálfvirku tilkynningarskyldunnar sem rekin hefur verið af Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu flytjast frá fjarskiptamiðstöðinni í Gufunesi, skipafjarskipti sem Landssími Íslands hefur rekið og vaktþjónustu Landhelgisgæslunnar, sem rekin hefur verið frá höfuðstöðvum gæslunnar við Seljaveg flytjast einnig í Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum verður áfram rekin í tengslum við vaktstöðina í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Siglingastofnun mun hafa eftirlit með rekstri vaktstöðvarinnar en fyrirtæki á vegum Flugmálastjórnar, Flugfjarskipti ehf., mun annast þjónustu á sviði fjarskipta fyrir vaktstöðvarreksturinn, en vaktstöðin verður einnig tengd þeirri fjarskiptaþjónustu sem þegar hefur verið komið á fót fyrir Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.
Með þessum áfanga eykst öryggi og viðbragðshraði og allar aðstæður batna til björgunar mannslífa í íslenskri efnahagslögsögu. Með samningnum verður vaktstöð siglinga sérstök miðstöð í Björgunarmiðstöðinni en fyrir eru tvær öflugar miðstöðvar þ.e. Fjarskiptamiðstöð lögreglu og Neyðarlínan. Í næsta nágrenni er einnig flugstjórnarmiðstöð Flugmálastjórnar. Þegar vaktstöðvarnar verða varar við atvik sem kallar á samræmdar leitar- og björgunaraðgerðir, verður samræmingarstöð Almannavarna um leit- og björgun virkjuð og mönnuð samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun og tekur hún þá við málinu, en vaktstöðvarnar halda áfram sinni reglulegu starfsemi.
Auk undirritun ofangreindra samninga munu dóms- og kirkjumálaráðherra og samgönguráðherra flytja stutt ávörp. Er blaðamönnum boðið að vera viðstaddir athöfnina en hún hefst kl. 16:00 í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
28. júní 2004.