Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Istanbúl
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn dagana 28. - 29. júní í Istanbúl, Tyrklandi. Af Íslands hálfu sátu þeir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fundinn.
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins lýstu sérstakri ánægju með nýafstaðna stækkun bandalagsins og buðu leiðtoga nýja aðildarríkjanna sjö velkomna.
Á fundinum var samþykkt að verða við ósk forseta Afganistan um aukna öryggisgæslu í landinu til að tryggja framkvæmd kosninganna síðar á árinu. Ennfremur var ákveðið að koma á fót fimm uppbyggingarteymum í norður og vestur hluta Afganistan, en hlutverk þeirra verður að stuðla að frekari uppbyggingu og stöðugleika á viðkomandi svæðum. Þá var jafnframt tekin ákvörðun um að hraða undirbúningi að friðargæslu alþjóðlegu öryggissveitanna í Afganistan utan höfuðborgarinnar Kabúl.
Þá lýstu leiðtogarnir yfir fullum stuðningi við ný stjórnvöld í Írak og samþykktu að verða við beiðni þeirra um aðstoð við þjálfun öryggissveita og hers með tilvísun til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1546.
Hvað varðar málefni Balkanskaga var samþykkt að ljúka starfsemi friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu, en Evrópusambandið tekur við friðargæslu þar frá og með haustinu. Í umfjöllun um Kosovo ákváðu leiðtogarnir að halda áfram óbreyttri friðargæslu í héraðinu til að styðja við uppbyggingu og tryggja stöðugleika þar.
Í tengslum við baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum var ákveðið að Rússland og Úkraína munu taka þátt í eftirlitsaðgerðum á Miðjarðarhafi. Fjallað var um ýmsar tillögur um aukið samstarf á þessu sviði, þar á meðal aukið upplýsingaflæði milli aðildarríkja og samstarfsríkjanna.
Jafnframt samþykktu leiðtogarnir að efla samstarf bandalagsins við Miðjarðarhafslönd með sérstöku frumkvæði sem einnig mun ná til þeirra ríkja sem ekki áður hafa tekið þátt í þessu samstarfi á svæðinu.