Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun nemenda í framhaldsskóla haustið 2004

Að gefnu tilefni vill ráðuneytið upplýsa að nú hafa nánast allir nýnemar fengið boð um skólavist í haust. Örfáar umsóknir eru óafgreiddar og verður þeim nemendum tryggð skólavist í byrjun ágúst.

Að gefnu tilefni vill ráðuneytið upplýsa að nú hafa nánast allir nýnemar fengið boð um skólavist í haust. Örfáar umsóknir eru óafgreiddar og verður þeim nemendum tryggð skólavist í byrjun ágúst. Ljóst var, um miðjan júní, að mun meiri aðsókn yrði að framhaldsskólunum en búist var við. Ráðuneytið brást við með þeim hætti að auka við húsnæði til bráðabirgða við þrjá skóla á höfuðborgarsvæðinu. Með því telur ráðuneytið að tryggt sé rými fyrir alla nýnema. Hins vegar er ljóst að ekki komast allir nemendur í þá skóla sem þeir hafa valið sem fyrsta eða annan kost. Við það verður aldrei ráðið þar sem aðsókn að einstökum skólum og námsbrautum er sveiflukennd frá einum tíma til annars.

Frá því haustið 2003 hefur legið fyrir að nemendatölur fjárlagaársins 2004 kynnu að vera vanáætlaðar. Ástæðan er sú að við innritun 2003 og fyrir haustið 2004 kom í ljós veruleg aukning skólasóknar svo til allra aldurshópa inn í framhaldsskóla. Jafnframt hefur brottfall farið minnkandi og fæðingarárgangar stækkandi. Sú breyta áætlanagerðarinnar er raunar sú eina sem hefur verið fyrirsjáanleg og útreiknanleg ár frá ári undanfarin ár.

Þegar staðreyndir nemendatalna 2003 lágu fyrir í ársbyrjun 2004 var árið gert upp við skólana og þeir beðnir að gera viðvart ef þeir teldu að nemendur yrðu fleiri en rúmuðust innan fjárlaga. Jafnframt var tekið fram að beðið yrði innritunartímans í júní 2004 til að fá staðfestingu á mati skólanna á umsóknum. Gripið yrði til viðeigandi ráðstafana þegar rauntölur lægju fyrir. Alltaf lá fyrir að sú úrlausn tæki nokkurn tíma vegna þess að aðsókn að einstökum skólum er misjöfn og nokkra daga tekur að greiða úr því hvar hinn raunverulegi vandi liggur. Undanfarin mörg ár hefur þannig nokkur hópur nemenda beðið þess fram í ágúst að úr þessum málum rættist enda þótt þá, eins og nú, hafi öllum meginþorra nýnema framhaldsskólanna verið boðin skólavist.

Ráðuneytið hefur fyrst og fremst beitt sér fyrir því að nemendur sem koma beint úr grunnskóla eigi tryggan aðgang að framhaldsskóla. Eldri nemendur sem hætt hafa námi og vilja hefja nám að nýju komast í framhaldsskólana eftir því sem pláss leyfir á viðkomandi námsbrautum. Það er ekki nokkur leið að tryggja framboð náms sem svarar mjög sveiflukenndri eftirspurn frá nemendum sem hafa gert hlé á námi sínu af persónulegum ástæðum eða vilja flytja sig á milli námsbrauta eða skóla. Aðgangur að mörgum sérhæfðum námsbrautum er takmarkaður af ýmsum ástæðum, m.a. þar sem kennslan krefst sérhæfðra tækja eða aðstöðu og einnig er aðgangur að starfsþjálfun í atvinnulífinu oft takmarkandi þáttur. Ráðuneytið vill ítreka að hér er ekki um breytingu að ræða frá því sem verið hefur. Nýnemar hafa ávallt gengið fyrir við innritun.

Staðreyndin er sú að undafarin ár hefur sívaxandi upplýsingastreymi milli skóla og ráðuneytis leitt til þess að nemendatölur og rýmisþörf hafa legið skýrar fyrir en áður og enn frekar á þessu ári en nokkru sinni fyrr.

Í samræmi við þetta hafa viðbrögð ráðuneytisins við ólíkum vanda sem upp kemur frá ári til árs verið hraðari og markvissari en áður.

Gagnrýni sem byggir á öðrum sjónarmiðum en þessum staðreyndum á þannig ekki við rök að styðjast.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum